VR mun gera kröfu í þrotabú WOW air fyrir útistandandi launum, launum á uppsagnarfresti og áunnum réttindum félagsmanna sinna, þegar þeir hafa skilað inn gögnum vegna málsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR, en stéttarfélagið hefur ákveðið að lána starfsmönnum fyrir þessum mánaðarmótum, upphæð sem nemur því sem Ábyrgðarsjóður launa annars tryggir, og koma þannig til móts við þá félagsmenn sem misstu vinnuna hjá WOW air.
Samtals misstu 1.100 starfsmenn vinnuna við fall fyrirtækisins, en talsvert hefur verið um uppsagnir hjá fyrirtækjum í dag, vegna þessa. Þannig var 315 starfsmönnum sagt upp hjá Airport Associates, sem var með helming veltu sinnar frá WOW air.
„Þess vegna er mikilvægt að allir skili inn til VR launaseðlum síðastliðna sex mánaða, ráðningarsamning ef hann er til og öðrum gögnum er tengjast vinnusambandinu. Rétt er að nefna að launakröfur eru forgangskröfur í þrotabú sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrstar ef einhverjar eignir eru fyrir hendi í búinu. Ef þrotabúið reynist eignarlaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa upp að hámarki kr. 633.000 á mánuði. Launakröfur síðustu þriggja mánaða í starfi eru tryggðar auk allt að þremur mánuðum í uppsagnarfresti. Hér eru frekari upplýsingar um gjaldþrot fyrirtækja og réttarstöðu starfsmanna,“ segir í tilkynningu á vef VR.
Félagið vill benda félagsmönnum á að mikilvægt er að þeir skrái sig atvinnulausa hjá Vinnumálastofnun sem allra fyrst þar sem bætur eru greiddar frá þem degi sem umsókn berst auk þess sem slík skráning er forsenda þess að Ábyrgðasjóður launa greiði út launakröfu vegna óunnins uppsagnarfrests hjá gjaldþrota fyrirtæki.