Átta þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Þau vilja að borin verði upp spurningin: Vilt þú að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu (NATO)? Tveir svarmöguleikar skuli vera í boði: Já og nei.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Andrés Ingi Jónsson en með honum eru þingmennirnir Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.
Tímasetning þjóðaratkvæðagreiðslunnar skuli vera í samræmi við lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna en samkvæmt þeim skal þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi.
Aðild Íslands að NATO umdeild frá upphafi
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með henni sé lagt til að þess verði minnst að 70 ár eru liðin frá samþykkt NATO-aðildar Íslands með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina.
„Aðild Íslands að NATO hefur verið umdeild frá upphafi. Miklar mótmælaaðgerðir voru á Austurvelli 30. mars 1949 þegar Alþingi samþykkti að Ísland yrði stofnaðili að bandalaginu og í kjölfarið voru 24 einstaklingar dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Deilurnar áttu eftir að setja svip á allt þjóðlífið og alla stjórnmálaumræðu á næstu áratugum. Þjóðin skiptist í fylkingar með eða á móti hernum. Þrátt fyrir það hefur almenningur aldrei haft beina aðkomu að málinu,“ segir í greinargerðinni.
Enn fremur kemur fram að Ísland hafi verið herlaust þá sem nú en aðild að NATO hafi verið samþykkt þegar óvissa um kalda stríðið var uppi. Kalda stríðinu sé hins vegar lokið og NATO hafi einnig fyrir löngu tekið að sér verkefni sem fari út fyrir upprunalegan tilgang sinn. Bandalagið sé löngu hætt að skilgreina sig sem einungis bandalag um sameiginlegar varnir aðildarríkja. Í stað þess að horfa til beinnar árásar á eitthvert aðildarríkja bandalagsins, og skuldbindingar annarra aðildarríkja að hrinda slíkri árás, sé nú litið á meinta ógn við einstök aðildarríki sem ógn og jafnvel árás á önnur. Með túlkun bandalagsins á ógn við öryggi um víða veröld fylgi nær opin heimild um hernaðaríhlutun, enda beiti NATO sér um heim allan í mun ríkari mæli en áður. Ísland hafi þannig ítrekað orðið aðili að stríðsátökum – ýmist beint eða óbeint í gegnum NATO-aðildina – eins og stríðinu í Líbíu árið 2012 eða loftárásum vesturveldanna á Sýrland á síðasta ári.
Óskhyggja um stöðu Íslands í hernaðarmálum
Bent er á í greinargerðinni að þvert á þessa stöðu telji 44 prósent Íslendinga að Ísland sé hlutlaust í hernaðarmálum. Þessi misskilningur á stöðu Íslands – eða kannski frekar óskhyggja – komi fram í rannsókn frá árinu 2018 um sýn Íslendinga á utanríkis- og öryggismál, þar sem jafnframt komi fram að 57 prósent aðspurðra telja að herleysi og friðsamleg tengsl við nágrannaríki tryggi helst öryggi Íslands, en aðeins 17 prósent telja aðildina að NATO stuðla að því.
„Þessar áherslur almennings kallast á við þá breyttu mynd af öryggis- og varnarmálum sem birst hefur á undanförnum árum og m.a. má sjá nokkuð móta fyrir í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þær ógnir sem að okkur steðja eru þess eðlis að borgaralegar lausnir virka betur en hernaðarlegar, hvort sem er í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, viðbrögðum við náttúruvá eða heilbrigðisöryggi. Þessum áskorunum verður ekki mætt með endurskipulagningu herstjórnarkerfis NATO á norðurslóðum, líkt og birst hefur á undanförnum misserum, eða því að herlið hafi varanlegan viðbúnað á Keflavíkurvelli, en sú hefur verið raunin undanfarin þrjú ár. Í aðdraganda þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér er lögð til er mikilvægt að staðið verði fyrir fræðslu og umræðu um öryggismál og þróun þeirra inn í 21. öldina, eðli NATO og annað sem snýr að afleiðingum hernaðar og vígvæðingar,“ segir í greinargerð með tillögu þingmanna VG.
Umræðan styrkir málstað friðar og samkenndar
Telja þingmenn VG að friðarsinnar hafi ekkert að óttast varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að NATO. Reynslan sýni að umræðan styrkir málstað friðar og samkenndar, enda séu flestir þeirrar skoðunar að það sé rangt að drepa annað fólk. Það sé löngu kominn tími til að leiða til lykta kröfu fólks á Austurvelli 1949 um að þjóðin sjálf fái að taka ákvörðun um aðild að NATO og stríðsrekstri þess.