Kaupþing ehf. , sem á 32,67 prósent hlut í Arion banka, hefur sett tíu prósenta hlut í bankanum í sölu. Virði hlutarins miðað við skráð gengi bréfa Arion banka í Kauphöll Íslands, er um 15 milljarðar króna.
Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins. Þar segir að bandaríski fjárfestingabankinn Citi, sænska verðbréfafyrirtækið Carnegie og Fossar markaðir eru ráðgjafar Kaupþings við söluna.
Arion banki var skráður á markað í fyrra. Hann varð þá fyrsti íslenski bankinn sem skráður var á hlutabréfamarkað eftir bankahrunið. Áður en að af skráningunni varð nýttu þeir erlendu sjóðir sem eru stærstu eigendur Kaupþings sér forkaupsrétt á 13 prósent hlut íslenska ríkisins í bankanum og greiddu fyrir 23 milljarða króna.
Tilkynnt var um hlutafjárútboð vegna tvískráningar Arion banka á Íslandi og í Svíþjóð um miðjan maí 2018. Í því var um 29 prósent hlutur í Arion banka seldur til nýrra fjárfesta. Bankinn var svo skráður á markaði í júní.
Í dag er eignarhald Arion banka með þeim hætti að Kaupþing ehf. er enn stærsti eigandinn með 32,67 prósent. Þá á Arion banki 9,31 prósent hlut í sjálfum sér. Vogunarsjóðirnir Taconic Capital (tíu prósent), Attestor Capital (7,15 prósent) og Och-Ziff Capital (6,58 prósent) koma þar næst. Stærsti innlendi fjárfestirinn í bankanum er Gildi lífeyrissjóður með 2,52 prósent hlut.
Hagnaður samstæðu Arion banka á fjórða ársfjórðungi 2018 nam 1,6 milljarði króna samanborið við 4,1 milljarðs króna tap á sama tímabili 2017, og var hagnaðurinn á árinu 2018 7,8 milljarðar króna. Á árinu 2017 var hagnaðurinn hins vegar 14,4 milljarðar.
Arðsemi eigin fjár var 3,2 prósent á fjórða ársfjórðungi 2018 samanborið við 7,3 prósent á sama tímabili árið 2017, en það telst fremur lág arðsemi í bankarekstri. Arðsemi var 3,7 prósent samanborið við 6,6 prósent arðsemi á árinu 2017.
Eigið fé Arion banka var 200,9 milljarðar í lok árs.