Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segist vera bjartsýn eftir gærdaginn en hún telur mikilvægan áfanga hafa náðst og að ástæða sé til meiri bjartsýni en verið hefur hingað til. „En að sjálfsögðu spyrjum við ekkert fyrr en að leikslokum. Það er ekki samningur í höfn fyrr en það er allt búið.“ Þetta segir hún í samtali við RÚV í dag.
Fram kom í fréttum í morgun að gengið hefði verið frá yfirlýsingu um meginlínur kjarasamninga á milli Samtaka atvinnulífsins og VR og félaga Starfsgreinasambandsins, skömmu eftir miðnætti. Samningunum er ætlað að standa til 1. nóvember 2022. Samkomulagið er þó með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda að samningum, og samþykki samninganefnda þeirra félaga um eiga aðild að samkomulaginu. Deiluaðilar munu funda með stjórnvöldum í húsakynnum Ríkissáttasemjara fyrir hádegi í dag.
Bryndís segist jafnframt ekki geta sagt til um hvort samningur náist í dag. „Það er verið að vinna í ýmiss konar textavinnu og uppfylla þær forsendur sem samkomulagið er háð. Þær eru ekki allar komnar í hús. En ég myndi nú segja að það muni skýrast að öllum líkindum í dag hvernig þetta fer allt saman,“ segir hún.
Mikilvægt að báðir aðilar hafi sett sitt mark á vinnuna
„Það sem mér finnst ánægjulegt í þessu samkomulagi var að það skyldu vera öll Starfsgreinasambandsfélögin sem væru aðilar að því samkomulagi. Þetta er auðvitað allt með fyrirvara um samþykki samninganefnda og ýmislegt annað. Það voru í rauninni báðir þeir tveir hópar, það er samflot Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness, VR og fleiri félaga annars vegar og hins vegar félög Starfsgreinasambandsins,“ segir Bryndís og bætir því við að báðir þessir hópar hafi staðið að þessu samkomulagi og finnist henni mjög ánægjulegt og mikilvægt að báðir hafi sett sitt mark á þessa vinnu sem þarna liggur að baki.
Í tilkynningu frá Eflingu segir að á fundinum hafi fengist fram grundvöllur til þess að loka samningum. Í samráði við félagsmenn ákvað formaður Eflingar að aflýsa verkfallsaðgerðum og vinna að lokagerð samnings. Sú vinna hefst strax í dag, en leitað verður eftir viðbrögðum stjórnvalda en samkvæmt tilkynningunni er aðkoma þeirra mikilvægur fyrirvari um undirritun samnings þegar þar að kemur.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Kjarnann að hann eigi von á því að fundurinn með stjórnvöldum verði fyrir hádegi í dag. Á þeim fundi má vænta þess að pakki stjórnvalda verði kynntur deiluaðilum en Ragnar segir að forsenda þess að þær meginlínur kjarasamninga sem samþykktar voru í gær verði að veruleika sé aðkoma stjórnvalda. Hann segir ómögulegt að vita hvers sé að vænta frá stjórnvöldum.
Hægt er hlusta á viðtalið við Bryndísi í heild sinni hér.