Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að það sem hefur verið til umræðu í viðræðum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins, og er ætlað að liðka fyrir gerð kjarasamninga, muni skila Íslandi á annan og betri stað í þróun samfélagsins.
Þetta er meðal þess sem Sigurður Ingi segir í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem er á dagskrá klukkan 21:00 í kvöld.
Hann segir þar að aðkoma ríkisins að gerð kjarasamninga sé áskorun um að geta komið til móts við ólíka aðila þannig að það markmið náist að verja þau lífskjör sem Íslendingar hafi náð á undanförnum árum og byggja viðbótargrunn að sókn til nýrra tíma. „Þetta eru fjölmargir þættir sem við erum að taka á. Ég held að það megi alveg tala um það sem slíkt að þetta sé meiriháttar plagg sem við séum að smíða.“
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Gengið var frá yfirlýsingu um meginlínur kjarasamninga á milli Samtaka atvinnulífsins og VR og félaga Starfsgreinasambandsins, skömmu eftir miðnætti.
Samningunum er ætlað að standa til 1. nóvember 2022. Samkomulagið er þó með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda að samningum, og samþykki samninganefnda þeirra félaga um eiga aðild að samkomulaginu. Um þá aðkomu hefur verið fundað í allan dag.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í samtali við Kjarnann í morgun að pakki stjórnvalda yrði kynntur fyrir deiluaðilum í dag en að ómögulegt væri að vita hvers væri að vænta frá þeim.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í tilkynningu að niðurstaðan í viðræðunum í nótt væri „ekki fullnaðarsigur heldur vopnahléslína milli stéttar verkafólks og stéttar auðmagnseigenda. Baráttan milli þeirra heldur áfram. Ég er sátt við að við höfum fengið fram grundvöll til þess að loka samningi eftir langar og strangar kjaraviðræður.“