Ýmsar takmarkanir á vægi verðtryggingar lána eru hluti af framlagi stjórnvalda inn í kjaraviðræður aðila vinnumarkaðarsins, samkvæmt heimildum Kjarnans, og er meðal annars horft til þess að verðtryggð jafngreiðslulán verði óheimil frá byrjun árs 2020, til lengri tíma en 25 ára.
Þá verður einnig horft til þess að tryggja að lágmarkslengd verðtryggðra lána verði 10 ár, þannig að sem flest önnur neytendalán en húsnæðislán, verði óverðtryggð.
Einnig er horft til þess að breyta vísitölutengingum lána, með það að markmiði að þær verði áhættuminni fyrir lántaka, en það á meðal annars að gera með því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölu verðtryggðra húsnæðislána.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er einnig horft til þess að draga úr vægi verðtryggðra hækkana á ýmissi þjónustu, til þess að draga úr áhrifum á verðtryggð lán og verðbólgu.
Stéttarfélögin sem aðild eiga að kjarasamningum hafa lagt mikla áherslu á að halda þessum atriðum til streitu, í kjaraviðræðunum. Stjórnvöld virðast tilbúin að koma til móts við þessar kröfur, í það minnsta að hluta, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Samninganefndir og forystufólk aðila vinnumarkaðarins sitja nú fundi þar sem unnið er að því að klára kjarasamninga, en samkvæmt heimildum Kjarnans standa vonir til þess að það náist að ljúka samningum á næsta sólarhring. Eins og fram kom í dag, þá var blaðamannafundi, þar sem kynna átti lífskjarasamning stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarsins, frestað, en ástæðan sem upp var gefin var sú að meiri tíma þyrfti til að klára mál.
Rammi um kjarasamninga, það er helstu atriði um kaup og kjör, var undirritaður á öðrum tímanum í nótt, en horft er til þess að samningar verði til 1. nóvember 2022, að því er fram kom í tilkynningu frá Ríkissáttasemjara.
Aðilar vinnumarkaðarsins hafa varist frétta um nákvæmisatriði í samkomulaginu, t.d. krónutöluhækkanir fyrir þá lægst launuðu og önnur atriði, en eins og áður segir þá er nú unnið að því að ljúka samningum á næsta sólarhring.