Flugmenn Ethiopian Airline, sem stýrðu 737 Max 8 vél félagsins sem hrapaði með skelfilegum afleiðingum, fylgdu nákvæmlega fyrirmælum frá flugvélaframleiðandanum Boeing, þegar þeir reyndu að reisa flugvélina við, en allt kom fyrir ekki.
Samkvæmt frumniðurstöðu rannsóknar í Eþíópíu þá bendir allt til þess að flugvélin hafi ekki virkað eins og hún átti að gera - og þá einkum MCAS kerfið sem á að koma í veg fyrir ofris - og því hafi vélin sífellt togast neðar og neðar, og að lokum orsakað brotlendingu með þeim afleiðingum að allir um borð létust, 157 talsins.
Flugmennirnir eru sagðir hafa reynt að aftengja kerfið og gripið til réttra aðgerða, en ekkert hafi virkað.
Niðurstaðan er sögð „martraðarútkoma“ (nightmarish outcome) fyrir Boeing, en fjallað er um rannsóknina á forsíðu Seattle Times í dag.
Í umfjöllun blaðsins, sem Dominic Gates, sérhæfður blaðamaður á sviði flugmála, skrifar, hefur komið fram að mikil framleiðslupressa hafi verið á Boeing, ekki síst vegna þess hve krefjandi hafi verið fyrir félagið að standa við afhendingar á Max vélum. Í umfjöllun blaðsins hefur komið fram að Boeing sé nú að endurskoða allar leiðbeiningar til flugmanna og flugfélaga, og yfirfara öryggiskerfi.
Tekið er fram að nýlegar uppfærslur á kerfum og hugbúnaði eigi að koma í veg fyrir að svona uppákomur geti endurtekið sig, en ef þessi niðurstaða frumrannsókna verður staðfest endanlega, hjá flugmálayfirvöldum í Eþíópíu og einnig í Indónesíu, þar sem 189 létust í 29. október í fyrra, þá gæti Boeing átt von á miklum og þung afleiðingum, ekki aðeins í formi málsókna, notkunarbanna á flugvélum félagsins og sektargreiðslna, heldur gæti þurft að gjörbreyta framleiðsluferlum, og flugfélög sem reiða sig á vélar félagsins - ekki síst af fyrrnefndri Max gerð - gætu þurft að bíða lengi eftir því að geta fengið vélar afhentar til notkunar.
Icelandair er eitt þeirra félaga sem þurfti að taka þrjár vélar af Max gerð úr notkun, vegna banns við notkun á vélunum, en það getur leyst vandamálin til skemmri tíma.
Til lengdar, eftir því sem bann við notkun dregst á langinn, þá gæti orðið erfitt fyrir flugfélög sem hafa gert ráð fyrir Max vélum til notkunar, að leysa vandamálin með leigu á öðrum vélum.
Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management hefur gert bindandi samkomulag um að kaupa 11,5 prósent hlut í Icelandair Group. Fyrirvari er um samþykki hluthafa Icelandair. Eftir kaupin verður sjóðurinn annar stærsti hluthafi félagsins á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem á 12,88 prósent í flugfélaginu.
PAR Capital á meðal annars yfir 5 prósent hlut í einu stærsta fyrirtæki heims á sviði bókunar í ferðaþjónustu, Expedia, en auk þess á sjóðurinn nokkuð stóra eignarhluti í flugfélögum, eins og Southwest, Alaska Airlines, Delta og United Continental. Öll þessi félög hafa nýtt vélar frá Boeing í sinni þjónustu, og glíma því með einum eða öðrum hætti við þau vandamál sem flugslysin tvö, og rannsóknir á ástæðum þeirra, hafa kallað fram.
Boeing er stærsti vinnuveitandi Seattle svæðisins, með tæplega 80 þúsund starfsmenn, en flestir eru þeir á starfssvæði félagsins í Renton. Félagið er 103 ára gamalt, en sagan teygir sig þó yfir 123 ár.
Markaðsvirði Boeing hefur sveiflast nokkuð undanfarin misseri, en það nemur nú 222 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 26 þúsund milljörðum króna.
Dennis Muilenburg, forstjóri félagsins, hefur sagt að félagið munið kafa ofan í öll atriði sem rannsaka þarf, vegna flugslysanna tveggja, og vinna í samstarfi við flugmálayfirvöld í hverju landi fyrir sig, eins og þarf. Hann hefur sagt að Boeing sé leiðandi í flugi í heiminum, og því fylgi mikil ábyrgð. Öryggið þurfi að vera í fararbroddi, og þannig verði það áfram.