Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að nú sé búið að ýta í burtu hindrun fyrir því að lækka vexti, en þeim var í síðustu vaxtaákvörðun haldið óbreyttum í 4,5 prósentum.
Þetta kemur fram í viðtali við Má á mbl.is. Þar segir hann meðal annars: „Við vorum komin á þann stað áður að það var farið að hægja á í þjóðarbúinu og svo verða áföll. Því var margt sem mælti með því að lækka raunvexti Seðlabankans til þess að minnka þessi áföll, en það var hins vegar þessi óvissa vegna kjarasamninganna sem hindruðu það. Nú er hún horfin.“
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, þá er ein af forsendum Lífskjarasamninganna svokölluðu, að vaxtastig fari lækkandi á Íslandi á næstu misserum.
Ef meginvextir Seðlabanka Íslands, oft kallaðir stýrivextir, lækka ekki um 0,75 prósentustig fyrir september 2020 eru forsendur kjarasamninga sem undirritaðir voru í nótt brostnar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var umtalsvert tekist á um þetta ákvæði við gerð kjarasamninganna og bárust meðal annars mótbárur frá Seðlabanka Íslands til samningsaðila í gær á meðan að verið var að ganga frá lokaútgáfu samninganna. Það var hins vegar ófrjávíkjanlegt að mati hluta þess hóps sem fór fyrir stærstu stéttarfélögum landsins að þetta ákvæði væri inni, sérstaklega ef semja ætti um hóflegar launahækkanir næsta árið vegna aðstæðna í efnahagslífinu.
Á endanum náðist sátt um að hafa orðalagið með þeim hætti sem greint er frá hér að ofan og ekki tilgreina neina sérstaka lækkun sem skilyrði fyrir því að kjarasamningar haldi. Kjarninn hefur hins vegar fengið það staðfest að til sé hliðarsamkomulag, svokallað „skúffusamkomulag“ sem er ekki hluti af opinberum kjarasamningi, sem feli í sér að vextir verði að lækka um 0,75 prósentustig fyrir september 2020, þegar fyrsta endurskoðun sérstakrar forsendunefndar mun eiga sér stað, til að kjarasamningar haldi.