Samþykkt var á aðalfundi Landsbankans í dag að greiða 9,9 milljarða króna í arð til ríkisins vegna reksturs á árinu 2018, en á árunum 2013 til 2019 hefur Landsbankinn greitt hluthöfum - þar sem íslenska ríkið á langsamlega stærstan hlut með meira en 98 prósent hlutafjár - 142 milljarða króna.
Á árinu nam hagnaður bankans 19,3 milljörðum króna, arðsemi eiginfjár var 8,2 prósent og kostnaðarhlutfall, það er rekstrarkostnaður sem hlutfall af tekjum, var 45,5 prósent. Útlán jukust um 138,9 milljarða króna, bæði til einstaklinga og fyrirtækja og vanskilahlutfall lækkaði í 0,8 prósent. Eigið fé bankans nam 239,6 milljörðum króna í árslok 2019 og eiginfjárhlutfallið var 24,9 prósent.
Landsbankinn er stærstur íslenskra viðskiptabanka, sé horft til eigin fjár bankans.
Í bankaráð voru kjörin Helga Björk Eiríksdóttir (formaður), Berglind Svavarsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Guðbrandur Sigurðsson, Hersir Sigurgeirsson, Sigríður Benediksdóttir og Þorvaldur Jacobsen. Guðbrandur kom nýr inn í bankaráðið.
Varamenn í bankaráðinu eru Guðrún Ó. Blöndal og Sigurður Jón Björnsson.
Þrjú stærstu fyrirtækin í ríkiseigu eru auk Landsbankans, Íslandsbanki og Landsvirkjun. Landsvirkjun greiðir 4,25 milljarða til ríkisins vegna ársins 2018 og tillaga fyrir aðalfund Íslandsbanka gerir ráð fyrir 5 milljarða arðgreiðslu. Samanlagðar arðgreiðslur þessara þriggja fyrirtækja, til ríkisins vegna ársins 2018, munu því 19,15 milljörðum króna.