Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarfélagsráðherra, sagði að kerfið hafi verið búið að vera á viðbragðsstígi gagnvart gjaldþroti WOW air í töluvert langan tíma og því tilbúið undir það.
Mikil vinna hefði farið í að greina hin efnahagslegu áhrif, áhrifin á ríkissjóð Íslands, sveitarfélög og almennt á fólk. Á ríkisstjórnarfundi í vikunni hafi verið farið yfir minnisblöð ýmissa ráðherra þar sem tilgreind voru viðbrögð þeirra.
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Sigurð Inga í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Þar ræddu þeir meðal annars kjarasamninga, fall WOW air, viðbragðsáætlun stjórnvalda og þær miklu samgönguframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á næstu árum.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Aðspurður um hvort að áhrifin á vinnumarkað hafi verið greind sagði Sigurður Ingi að það hafi verið gert að því marki sem var hægt. Sá mikli vöxtur sem verið hefur á Íslandi hefur kallað á mikinn fjölda innflytjenda þar sem ekki hefur verið nægt vinnuafl á Íslandi til að standa undir eftirspurn.
Í byrjun mars 2019 voru erlendir ríkisborgarar á Íslandi orðnir 45.130 talsins og hafði fjölgað um 113 prósent frá byrjun árs 2011. Frá byrjun árs 2017 hefur þeim fjölgað um 49 prósent.