Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að það hafi verið mat íslenska ríkisins að stíga ekki inn í rekstur WOW air.
Það mat hefði byggt á umfangsmikilli ráðgjöf, meðal annars erlendis frá. „Ég held að það hafi verið rétt, ekki síst í ljósi þess að tvö fyrirtæki á markaði, Icelandair í tvígang og Indigo Partners, fóru í nákvæmlega sömu skoðun um hvort þeir ættu að fara inn í þetta. En mátu að það væri ekki skynsamlegt og of mikil áhætta fólgin í því fyrir þau fyrirtæki.“
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Sigurð Inga í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Þar ræddu þeir meðal annars kjarasamninga, fall WOW air, viðbragðsáætlun stjórnvalda og þær miklu samgönguframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á næstu árum.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Sigurður Ingi sagði að viðbragðsáætlun ríkisins vegna falls WOW air hefði fyrst og síðast verið viðbragðsátælun við falli flugfélags. Hún hafi snúist um að vernda orðspor Íslands sem ferðaþjónustulands og að koma farþegum til síns heima. Hann telji að það hafi tekist vel.
Auk þess hafi félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun verið undir það búin að takast á við þann mikla atvinnumissi sem varð við fall WOW air, sem er mesti atvinnumissir á einum degi í Íslandssögunni.
Að sögn Sigurðar Inga hafði vinna við að greina kerfislega mikilvæg fyrirtæki á Íslandi hafist fyrir um ári síðan. Ákveðið hafi verið að byrja á því að greina fluggeirann af augljósum ástæðum, enda bæði flugfélög landsins þá þegar farin að glíma við rekstrarvanda, þótt aðstæður þeirra til að takast á við hann hafi verið ólíkar. „Við vorum þar af leiðandi búin að greina það það þótt WOW væri mikilvægt fyrirtæki þá væri engu að síður meiri áhætta fólgin í því að stiga inn í það eins og við gerðum á fjármálamarkaðinum.“
Að lokum hafi þýska ríkið setið uppi með umtalsvert tjón þegar Air Berlin hætti á endanum starfsemi enda hafði verið áfram seldir flugmiðar eftir að það steig inn.„Það má meira að segja geta þess að einn aðilinn, erlendur, benti okkur á að ef við vildum vera í flugrekstri þá væri í sjálfu sér gáfulegra að stofna okkar eigið flugfélag.“
Aðspurður sagði Sigurður Ingi að íslensk stjórnvöld hafi ekki skoðað þann valmöguleika. það væru 25-30 flugfélög að fljúga til landsins á sumrin og 15 á veturna.