Ein þeirra sviðsmynda sem verið er að skoða í framtíðarskipulagi samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu er að setja upp gjaldtöku til að stýra umferð inn á ákveðin svæði í höfuðborginni, til dæmis inn í miðborg hennar.
Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
„Það er ein sviðsmyndin sem við erum að vinna eftir og munum gera í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim tilgangi að ná fram þessum markmiðum um öruggari og skilvirkari umferð en líka þessum loftlagsmarkmiðum okkar um betri loftgæði. Við vitum að hér í Reykjavík er illu heilli oft á tíðum bara ekki nógu gott ástand hvað varðar loftgæði og við þurfum að gera eitthvað í því og umferðin er oft á tíðum stærsti þátturinn þar.“
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Í lok mars kynntir Sigurður Ingi ákvörðun um að stofna vinnuhóp í samstarfi ríkisstjórnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hefur það markmið að finna fjármögnunarleiðir fyrir stórframkvæmdir í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að vinnuhópurinn ljúki störfum á næstu tveimur mánuðum.
Hann sagði í þættinum að í þeirri vegferð væri verið að horfa á norskt módel, sem fyrirfinnst meðal annars í Osló, Björgvin, Stavangri og tveimur öðrum þéttbýliskjörnum þar sem eru
sambærilegir að stærð við höfuðborgarsvæðið. „Þar sem að menn hafa sett upp gjaldtöku sem að hefur áhrif á hegðun fólks á ákveðin hátt. Stýrir umferð“.
Í vinnunni er höfuðborgarsvæðið afmarkað frá Vesturlandsvegi, Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi. Allar stofnbrautarframkvæmdir sem þar eru áætlaðar, eru inni í þeim pakka sem um ræðir. Áætlaður kostnaður þeirra er um 50 milljarðar króna. Hin margumrædda Borgarlína er líka hluti af pakkanum en kostnaður við þann hluta hennar sem er þar inni er áætlaður að minnsta kosti 42 milljarðar króna. Auk þess eru framkvæmdir við fjölbreyttari ferðamáta á borð við hjólastíga og göngustíga þar inni sem og umferðstýring.