Í heimi þar sem alþjóðavæðing fer sívaxandi er Ísland þó hvergi nærri óhult gagnvart þeim hættum sem felast í peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, né undanþegið þeirri skyldu að grípa til viðeigandi og nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir að slíkt fái þrifist innan áhrifasvæðis þess.
Þetta kemur fram í Áhættumati ríkislögreglustjóra 2019 um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem birtist í gær.
Samkvæmt skýrslunni taldis greind ógn varðandi peningaþvætti vera mikil þegar kom að frumbrotum skattsvika, peningasendingum, einkahlutafélögum, raunverulegum eigendum, flutningi reiðufjár til og frá landinu, starfsemi sem stundar reiðufjárviðskipti, lögmönnum, spilakössum og afléttingu fjármagnshafta.
Þá taldist greind ógn vera veruleg þegar kom að innlánum, útgáfu rafeyris, greiðsluþjónustu, skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum, sjóðum og stofnunum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, öðrum almannaheillafélögum, reiðufé í umferð, endurskoðendum, fasteignasölum, vöru og þjónustu og kerfiskennitölum.
Aftur á móti var ógn talin miðlungs í tilviki útlána, sýndarfjár, rekstri sjóða, hlutafélaga, sjálfseignarstofnana og samlagsfélaga, viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga, veðmála og viðskipta með eðalmálma og -steina. Ógn var hins vegar metin lítil þegar kom að lífeyrissjóðum, líftryggingum, öðrum félögum, skipasölum, happdrætti, bingó, lottó, fjárhættuspilum á netinu og ferðamönnum.
Áhætta af fjármögnun hryðjuverka hér er talin vera lítil eða miðlungsmikil. Bent er á í skýrslunni að þrátt fyrir veikleika séu engin dæmi hér á landi um fjármögnun hryðjuverka eða tengsl við slíka háttsemi erlendis.