Þrátt fyrir fall WOW air og síðan undirritun kjarasamninga, sem ná til um 100 þúsund félagsmanna stéttarfélaganna og aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins, þá hafa áhrifin á markaði verið fremur hófstillt. Svo virðist sem fjárfestar reikni með því að íslenska hagkerfið standi sterkt, þrátt fyrir allt.
Gengi krónunnar hefur styrkst undanfarna daga gagnvart evru og Bandaríkjadala. Evran kostar nú 133 krónur en fór upp í tæplega 138 krónur skömmu áður en WOW air var gjaldþrota. Bandaríkjadalur kostar nú 119 krónur en fór upp í 123 krónur skömmu fyrir fall WOW air.
Ekki hafa verið miklar sveiflur á gengi krónunnar, en Seðlabanki Íslands hefur undanfarna mánuði beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði, eins og fjallað hefur verið um á vef Kjarnans, til að sporna gegn veikingu og of miklum sveiflum. Segja má að þetta hafi í stórum dráttum tekist, þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi veikst umtalsvert á undanförnu ári, en þó einkum frá haustmánuðum í fyrra, samhliða því að rekstrarvandi WOW air komst í hámæli. Fyrir um ári síðan kostaði evran 120 krónur og Bandaríkjadalur um 100 krónur.
Undirritun kjarasamninga virðist heldur ekki valda miklum titringi á mörkuðum, og ekki að sjá að væntingar séu um að verðbólga geti farið úr böndunum vegna þeirra, sé horft til þróunar á skuldabréfamarkaði. Verðbólga mælist nú 2,9 prósent og meginvextir bankans eru 4,5 prósent.
Gjaldþrot WOW air var þó mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna, og er of snemmt að segja til um hvernig ýmis fyrirtæki í ferðaþjónustu munu leysa úr þeim vandamálum sem skapast við það, að færri erlendir ferðamann heimsækja landið. Það eru ekki síst lítil og meðalstór fyrirtæki, í gisti- og veitingaþjónustu, og einnig afþreyingu, sem finna fyrir áhrifunum. Samtals misstu um 2 þúsund manns vinnuna í kjölfar falls WOW air. Höggið var ekki síst þungt á Suðurnesjum, þar sem mikil nærþjónusta er við Keflavíkurflugvöll og ýmsa starfsemi í ferðaþjónustu.
Loðnubrestur er einnig töluvert áfall, meðal annars fyrir sveitarfélög eins og Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar. Gjaldeyristekjur vegna loðnu hafa verið á bilinu 18 til 30 milljarðar á árinu undanfarin ár, og því eru miklir hagsmunir í húfi.
Í nýjasta riti Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, segir í formála Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, að litlar líkur séu á því að þau áföll sem hafa komið fram að undanförnu, þá meðal annars fall WOW air og síðan loðnubrestur, muni ógna fjármálastöðugleika. „Þrátt fyrir þessa óvissu um bein og afleidd áhrif eru við núverandi aðstæður litlar líkur á því að þau áföll sem þegar hafa riðið yfir muni ógna stöðugleika fjármálakerfisins. Þau eru einfaldlega ekki nægjanlega stór til þess í ljósi þess mikla viðnámsþróttar sem þjóðarbúið og fjármálakerfið búa nú við. Þessi viðnámsþróttur birtist í hreinni eignastöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, stórum gjaldeyrisforða, á heildina litið tiltölulega góðri eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja og háum eiginfjárhlutföllum og góðri lausafjárstöðu bankanna. Þá er svigrúm hagstjórnar til að bregðast við töluvert og mun meira en víða um heim. Það er afgangur á ríkissjóði og skuldir hins opinbera eru litlar í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Svigrúm til lækkunar vaxta er hér mikið ef aðstæður kalla á, ólíkt mörgum viðskiptalöndum, þar sem þeir eru töluvert fyrir ofan núll hér á landi,“ segir Már.