Á fyrstu þremur mánuðum ársins voru um 3.500 störf laus á íslenskum vinnumarkaði. Á sama tíma voru um 228.300 störf mönnuð og hlutfall lausra starfa því rétt um 1,5 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2019. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er hluti af samstarfi ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu um vinnumarkaðstölfræði. Hagstofan hefur nú rannsakað vinnumarkaðinn hér á landi með ársfjórðungslega niðurstöðum samfellt frá ársbyrjun 2003. Aftur á móti er þetta í fyrsta skipti sem Hagstofan birtir tölur um fjölda og hlutfall lausra starfa á íslenskum vinnumarkaði en þessar tölur eru birtar til að bera saman fjölda lausra starfa innan Evrópu. Til að mynda var á fjórða ársfjórðungi 2018 hlutfall lausra starfa 2,3 prósent í Evrópusambandinu en þá var hlutfallið hæst í Tékklandi eða alls 6 prósent.
Mun færri konur en karlar í fullu starfi
Ef vinnumarkaðurinn hér á landi á fjórði ársfjórðungur 2018 er skoðaður þá má sjá að jafnaði voru 203.700 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 198.900 starfandi og 4.900 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka var því 80 prósent, hlutfall starfandi 78,6 prósent en atvinnuleysi 2,4 prósent á fjórða ársfjórðungi 2018. Starfandi fólki fjölgaði um 4500 á milli ára en hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði þó um hálft prósentustig.
Af starfandi fólki á fjórða ársfjórðungi 2018 voru 148.500 í fullu starfi, eða 74,7 prósent og 50.400 í hlutastarfi eða 25,3 prósent. Fólki í fullu starfi fjölgaði um 4.800 frá fjórða ársfjórðungi 2017 en fjöldi fólks í hlutastörfum stendur í stað. Talsverður munur er á kynjunum þegar að kemur að starfshlutfalli en starfandi konum voru 62,3 prósent í fullu starfi á fjórða ársfjórðungi 2018 og 88,6 prósent af starfandi körlum
Atvinnuleysi eigi eflaust eftir að taka stökk upp á við
Á fjórða ársfjórðungi mældist atvinnuleysi 2,4 prósent, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Atvinnuleysi mældist hæst líkt og vanalega hjá aldurshópnum 16 til 24 ára eða 5,3 prósent. Ef litið er til menntunar var atvinnuleysi hjá þeim sem hafa aðeins lokið grunnmenntun 4,3 prósent. Hjá þeim sem lokið hafa starfs- eða framhaldsmenntun mældist atvinnuleysi 2,1 prósent og 1,3 prósent meðal þeirra sem lokið hafa háskólamenntun. Enginn munur var á atvinnuleysi milli höfuðborgarsvæðisins og utan þess.
Vinnumálastofnun mælir einnig atvinnuleysi en tölur Vinnumálastofnunar sýna hversu margir eru skráðir atvinnulausir og njóta atvinnuleysis bóta. Á meðan niðurstöður Hagstofunnar byggja á mánaðarlegri úrtakskönnun þar sem fólk er spurt um stöðu sína.
Í nýrri Hagsjá Landsbankans má sjá að ef litið er til 12 mánaða hlaupandi meðaltals hefur atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar verið nokkuð stöðugt í næstum tvö ár. Tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi hafa hins vegar hækkað nokkuð á síðustu mánuðum.
Í febrúar var skráð atvinnuleysi 3,1 prósent samanborið við 2,1 prósent í febrúar árið 2018. Í kjölfar gjaldþrot WOW air í lok mars er búist við fjölda uppsagna og samkvæmt Vinnumálastofnun er talið að alls hafi um 1.600 manns fengið uppsagnarbréf í marsmánuði. Færu þeir allir á atvinnuleysisskrá myndi skráð atvinnuleysi strax fara upp í kringum 4 prósent. Í hagsjá Landsbankans segir að ekki verði útséð hver þróunin verður á næstu vikum og mánuðum en að atvinnuleysi eigi eflaust eftir að taka stökk upp á við.
Farið að hægja á fjölgun erlendra ríkisborgara
Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 en þá voru innflytjendur 12,6 prósent mannfjöldans. Á árunum 2017 og 2018 átti sér stað metfjölgun erlendra ríkisborgara sem koma hingað til lands til að búa hér. Á því tímabili fjölgaði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 prósent. Ástæðan er sú að á Íslandi var mikill efnahagsuppgangur og mikill fjöldi starfa var að fá samhliða þeim uppgangi, sérstaklega í þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu og í byggingaiðnaði.
Nú hins vegar þegar hagkerfið er farið að kólna og spenna að losna þá virðist erlendum ríkisborgurum sem sækja hingað til lands fækka samhliða. Samkvæmt tölum hagstofunnar fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem búsettir eru á Íslandi um 820 á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2019. Til samanburðar þá fjölgað erlendum ríkisborgurum með búsetu á Íslandi um 1.620 á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018. Því virðist allt stefna í að mun færri erlendir ríkisborgarar muni flytja til landsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en gerðu það á sama tímabili í fyrra.