Icelandair flutti 268 þúsund farþega í marsmánuði, sem er aukning um þrjú prósent miðað við mars á síðasta ári.
Þetta kemur fram í tölum sem félagið birti í tilkynningu til kauphallar.
Framboð var aukið um 6 sex prósent, og var sætanýting 81,2 prósent samanborið við 81,9 prósent á sama tíma í fyrra.
Ferðamannamarkaðurinn til Íslands var stærsti markaður félagsins í mars með 45 prósent af heildarfarþegafjölda, segir í tilkynningunni.
Farþegum fjölgaði einnig mest á þessum markaði eða um 13 prósent á milli ára.
Komustundvísi í leiðakerfi félagsins í mars nam 77,3% og batnaði hún um 4,7 prósentustig frá síðasta ári.
Farþegar dótturfélagsins Air Iceland Connect voru 23 þúsund og fækkaði um 19 prósent á milli ára. „Skýrist það aðallega af flugi til Aberdeen og Belfast sem var lagt niður í maí á síðasta ári,“ segir í tilkynningunni.
Seldar gistinætur hjá hótelum félagsins jukust um 14 prósent, en herbergjanýting var áþekk milli ára, eða um 78 prósent..
Rekstur Icelandair hefur verið erfiður undanfarin misseri, en félagið tapaði 6,8 milljörðum króna á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.
Félagið var með um 55 milljarða króna í eigið fé í lok árs í fyrra, en heildarskuldir námu um 110 milljörðum. Markaðsvirði félagsins er um 47 milljarðar króna, um þessar mundir.