Á fyrstu hundrað dögum ársins hefur vísitala kauphallar Íslands, OMX Iceland, hækkað um rúmlega 20 prósent. Sé hins vegar horft eitt ár aftur í tímann hefur hún staðið í stað.
Mest hefur hækkunin verð á gengi bréfa í Marel, eða um 40 prósent, en fyrirtækið undirbýr nú tvíhliða skráningu félagsins á Euronext hlutabréfamarkaðinn í Amsterdam. Félagið er langsamlega stærst meðal skráðra félaga á aðallista kauphallarinnar og nemur markaðsvirði félagsins nú um 350 milljörðum króna.
Í dag hækkaði gengi bréfa Arion banka mest, um 4,23 prósent, en markaðsvirði bankans nemur nú 148 milljörðum króna.
Þessi tvö fyrirtæki eru því með markaðsvirði upp á um 500 milljarða, en heildarvirði skráðu félaganna á aðallista nemur nú rúmlega 1.050 milljörðum króna.
Stærstu eigendur hlutabréfa á skráðum markaði á Íslandi eru íslenskir lífeyrissjóðir, með um 40 til 50 prósent hlutafjár. Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands frá 4. apríl, þá námu heildareignir lífeyrissjóða námu 4.451 milljörðum króna í lok febrúar og hækkuðu um 63 milljarða eða 1,4 prósent frá mánuðinum á undan.
Þar af voru eignir samtryggingadeilda 4.002 milljarðar og séreignadeilda 448 milljarðar.
Í lok febrúar námu innlendar eignir lífeyrissjóða 3.226 milljörðum króna. Þar af voru innlán í innlendum innlánsstofnunum 159 milljarðar króna og innlend útlán og markaðsverðbréf 2.951 milljarðar. Erlendar eignir lífeyrissjóða voru 1.225 milljörðum í lok febrúar.