Í frumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, er lagt til að bankaskattur verði lækkaður úr 0,376 prósent af heildarskuldum í 0,145 prósent, en horft er til þess að lækkunin skili sér til almennings í gegnum betri kjör hjá fjármálastofnunum.
Verði frumvarpið að lögum munu skatttekjur ríkisins dragast saman um 18 milljarða króna á árunum 2020 til 2023.
Í greinargerð með frumvarpinu er vitnað til þess að í stjórnarsáttmála sé vikið að því, að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. „Í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2016–2020 komu fyrst fram þau áform að skatthlutfallið 0,376% héldist óbreytt árin 2017–2019 á meðan framleiðsluspenna og þensla vegna eftirspurnar gengi yfir í hagkerfinu og ríkissjóður væri enn að greiða niður skuldir sem mynduðust eftir fjármálahrunið. Hlutfallið yrði síðan lækkað í fjórum jöfnum skrefum á árunum 2020–2023 niður í 0,145%. Sams konar áform komu fram í næstu tveimur fjármálaáætlunum,“ segir í greinargerðinni.
Íslenska ríkið er stærsti eigandi fjármálafyrirtækja á Íslandi, og ræður yfir á bilinu 70 til 80 prósent af þeirri þjónustu sem í boði er. Ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti, og ríflega 98 prósent hlut í Landsbankanum, sem jafnframt er stærsti bankinn á markaðnum.
Samtök fjármálafyrirtækja hafa kvartað töluvert undan bankaskattaninum, og sagt að hann dragi úr samkeppnishæfni íslenska bankakerfisins og leiði til verri kjara fyrir almenning. Með lækkun skatts er komið til móts við þessi viðhorf, og á hann að skila sér í betri kjörum - t.d. lægri útlánavöxtum - til íslenskra heimila og fyrirtækja.