Kjartan Hreinn Njálsson, annar ritstjóri Fréttablaðsins, mun láta af störfum þar bráðlega og hefja störf á nýjum vettvangi. Frá þessu er greint á Vísi.
Áætlað er að hann hætti hjá Fréttablaðinu í sumarbyrjun. Hinn ritstjóri Fréttablaðsins er Ólöf Skaftadóttir.
Kjartan Hreinn og Ólöf tóku við sem ritstjórar Fréttablaðsins í júní í fyrra þegar Kristín Þorsteinsdóttir, sem hafði verið aðalritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, steig til hliðar og einbeitti sér að starfi útgefanda. Krístín hafði þá verið ritstjóri í fjögur ár.
Fréttablaðið er í eigu Torgs ehf., félags í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Hún er einnig forstjóri félagsins.
Torg gefur út fríblaðið Fréttablaðið sex daga vikunnar, sem lesið er af 38,9 prósent landsmanna, og rekur vefinn www.frettabladid.is. Auk þess gefur Torg út tímaritið Glamour.