Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sent efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis minnisblað, með samþykki ríkisstjórnar, þar sem hann leggur til tvær breytingar á frumvarpi til breytinga á lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, sem er nú til meðferðar Alþingis.
Önnur breytingin er sú að launahækkun kjörinna fulltrúa – þingmanna og ráðherra – sem átti að koma til framkvæmda 1. júlí næstkomandi mun ekki verða. Þess í stað verði ráðherranum veitt heimild í eitt skipti til að hækka laun laun þjóðkjörinna fulltrúa þann 1. janúar 2020 til samræmis við áætlaða breytingu á launum þann 1. júlí 2020.
Auk þess er lagt til að ákvæði um heimild ráðherra til að hækka laun 1. janúar til samræmis við áætlaða breytingu á launum 1. júlí verði fellt út en ákvæðið er í nokkrum greinum frumvarpsins.
Samþykkt var á Alþingi í fyrrasumar að leggja kjararáð, sjálfstætt ráð sem er falið var það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins, niður. Það var gert í kjölfar þess að starfshópur sem skipaður var af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra lagði slíkt til í febrúar 2018.
Sá hópur var skipaður eftir að ákvarðanir kjararáðs höfðu síendurtekið valdið illdeilum á vinnumarkaði og hneykslun í samfélaginu. Bar það hæst sú ákvörðun kjararáðs í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Þegar frumvarp um það sem ætti að taka við af kjararáði var lagt fram þá var gert ráð fyrir því að fjármála- og efnahagsráðherra myndi fá heimild til að hækka laun kjörinna fulltrúa í júlí 2019 umfram þær hækkanir sem hopurinn hafði þegar fengið.
Alþýðusamband Íslands skilaði inn umsögn um frumvarpið 11. janúar síðastliðinn þar sem meðal annars voru gerðar „alvarlegar athugasemdir við að til standi að hækka laun allra þeirra ráða- og embættismanna sem breytingin nær til þann 1. júlí n.k. þrátt fyrir að fyrir liggi að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafi hækkað langt umfram almenna launaþróun. ASÍ leggst sömuleiðis gegn því að ráðherra fái heimild til þess að hækka laun umrædds hóps þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins og leggur til launin taki breytingum einu sinni á ári þegar mat Hagstofunnar á breytingu reglulegra launa ríkisstarfsmanna liggur fyrir í júní ár hvert.“
Nú hefur, líkt og áður kom fram, verið fallið frá þeim hækkunum.