„Í kvöld samþykkti Evrópuráðsþingið þingsályktun og tilmæli til aðildaríkja Evrópuráðsins um raunverulegar trúverðugar aðgerðir til þess að berjast gegn kynferðislegri mismunun kvenna í pólitík í allri Evrópu. Þetta eru frábærar fréttir fyrir alla jafnréttissinna og sömuleiðis lýðræðissinna. Því kynferðislegt áreiti gegn konum í pólitík er ekki einungis brot gegn konunum sjálfum heldur einnig til þess fallið að draga úr lýðræðislegri þátttöku kvenna í pólitík. Ég er gríðarlega ánægð með að vinnan sem ég ýtti úr vör í janúar sl. hafi fengið eins farsælan endi og raun ber vitni.“
Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, á Facebook síðu sinni. Hún er formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins.
Hún og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tókust á í ræðum á þinfundi Evrópuráðsþingsins, og sagði Bergþór meðal annars þar að stíga ætti varlega til jarðar í því að refsa þingmönnum fyrir brot á siðareglum þjóðþinga. Sagði hann að andstæðingar gætu nýtt sér slíkt til að koma höggum á andstæðinga sína.
Bergþór var einn sex þingmanna, sem ræddu saman á Klaustur bar, eins og þekkt er orðið. Hann fór í leyfi, eftir að upptaka af samtölum þingmannanna var birt á internetinu, en í samtölunum töluðu þingmennirnir, og ekki síst Bergþór sjálfur, með niðrandi hætti um þingkonur og fleiri. Hinir fimm voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason. Ólafur og Karl Gauti voru reknir úr Flokki fólksins eftir málið kom upp, en gengu svo til liðs við Miðflokkinn, sem nú er með átta manna þingflokk.
Þórhildur Sunna gagnrýndi ræðu Bergþórs harðlega. Hún sagði Bergþór einfaldlega hafa haldið sig þá umræðu sem hann hefði viðhaft, frá því hann snéri aftur á þing eftir leyfi. „Það hefur vakið talsverða athygli að Bergþór Ólason, einn þeirra þingmanna sem höfðu sig hvað mest í frammi í viðbjóðslegu kvenhaturstali Klaustursþingmanna, tók til máls í umræðum Evrópuráðsþingsins um skýrsluna. Ummæli hans voru þó ekki ný af nálinni, en í jómfrúarræðu sinni í Evrópuráðsþinginu valdi Bergþór að bjóða þingmönnum Evrópu upp á sama bullið og hann hefur reynt að selja Íslendingum í fleiri mánuði.
Mér fannst ræðan hans Bergþórs frekar vandræðaleg, sér í lagi þegar hann gaf það skýrt til kynna að hann teldi að ég hefði haft frumkvæði að þessari skýrslu í pólitískum tilgangi, til þess að ná höggi á hann eða Miðflokkinn.
Ég svaraði því til, og vil leggja áherslu á það hér, að skýrslan mín er vissulega samin í pólitískum tilgangi. Sá pólitíski tilgangur hefur hins vegar ekkert með hvorki Bergþór eða Miðflokkinn að gera.
Það er pólitík að konur geti tekið þátt í stjórnmálum án þess að ráðist sé á þær á grundvelli kyns, að gert sé lítið úr þeim fyrir útlit þeirra, klæðaburð, fas, kvennleika, skort á kvennleika, kynþokka, skort á kynþokka eða nokkuð annað sem hefur nákvæmlega ekki neitt um það að segja hvers virði þeirra hugmyndir, rök og erindi í pólitík eru. Það er pólitík í því að konur þurfi ekki að lifa við að vera beittar kynferðislegu áreiti og jafnvel kynferðislegu ofbeldi við störf sín í pólitík,“ sagði Þórhildur Sunna.