Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að fyrirhugað bann við 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum, sem samið var um í hinum svokölluðu lífskjarasamningum í síðustu viku, verði að haldast í hendur við það að ný lán fyrir tekjulága hópa komið fram.
Sem stendur er sérstaklega verið að horfa á svokölluð hlutdeildarlán, eða eiginfjárlán eins og þau voru kölluð af starfshópi félags- og barnamálaráðherra sem skilaði tillögum í síðustu viku, fela í sér að ríkið verði í raun meðeigandi að íbúðum sem lántakendurnir kaupa.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við forsætisráðherra í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í kvöld klukkan 21.
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan:
Katrín segir þar að gagnagrunnurinn sem stjórnvöld kynntu nýlega, Tekjusagan, hafi dregið það mjög vel annars vegar þróun ráðstöfunartekna og hins vegar gefnar stærðir hvað varðar húsnæðisstuðning, barnabætur og annað slíkt. „Þar kemur þetta mjög skýrt fram með tekjulága hópinn sem er á leigumarkaði og er að nýta allt of stóran hluta af sínum ráðstöfunartekjum í húsnæði.“
Vegna þessa var kynnt það sem Katrín kallar „hlaðborð aðgerða“ á vegum starfshóps á vegum félags- og barnamálaráðherra í lok síðustu viku. Hægt er að lesa allt um þær tillögur hér.
Nú standi yfir vinna hjá ríkisstjórninni að velja þær aðgerðir af þessu hlaðborði sem hún telur vænlegust til að lækka þröskulda tekjulágra hópa inn á húsnæðismarkað. „Það hangir auðvitað saman við það sem við boðum um að draga úr vægi verðtryggingar. Að það séu einhverjir valkostir fyrir fólk aðrir.“
Katrín segir að nýju lánin sem stefnt sé að verði ekki í boði fyrir alla og að vinna sé framundan með aðilum vinnumarkaðarins við að skilgreina hvaða hópar muni eiga rétt á þeim.
Aðspurð um hvort að fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum séu fjármagnaðar samkvæmt fjármálaáætlun segir Katrín að það sé horft til Íbúðalánasjóðs sem aðila sem hafi ákveðnu félagslegu hlutverki að gegna þar. „Þannig að þetta birtist kannski ekki sem bein útgjöld að hálfu ríkisins í fjármálaáætlun heldur í gegnum Íbúðalánasjóð.“