„Kannski snýst þessi spurning meira um veru okkar í EES og kannski snýst hún líka um það hvort við viljum leggja sæstreng eða ekki og hver er þá afstaða okkar almennt til orkuframleiðslu á Íslandi.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni þar sem þau ræddu þriðja orkupakkann og þær miklu deilur sem sprottið hafa upp um hann.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Þingstörf síðustu viku snerust að stórum hluta um umræður um þriðja orkupakkann, en sex flokkar á Alþingi styðja innleiðingu hans á meðan að tveir, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, eru á móti. Auk þess hafa samtökin „Orkan okkar“ láti mjög til sín taka í umræðum um málið en þau eru á móti innleiðingu hans. Á meðal stofnenda þeirra félagasamtaka eru menn sem hafa leikið lykilhlutverk innan Vinstri grænna í gegnum tíðina á borð við Ögmund Jónasson, Jón Bjarnason og Hjörleif Guttormsson.
Katrín sagðist spyrja sig hvort að þriðji pakkinn feli í sér frekari markaðsvæðingu orkufyrirtækja en orðið sé. Hennar svar sé nei. Framsal valdheimilda komi fyrst og síðast til vegna hans ef Ísland tengist meginlandi Evrópu í gegnum sæstreng. Búið sé að ganga þannig frá málinu að hálfu ríkisstjórnarinnar að ákvörðun um að leggja slíkan streng verði aldrei tekin án aðkomu Alþingis. Ekkert í þriðja orkupakkanum sé heldur þannig að Landsvirkjun verði seld og að aðrir en íslensk stjórnvöld geti tekið ákvörðun um lagningu sæstrengs til landsins.
Katrín sagðist þó hafa fullan skilning á því að fólki sé annt um orkuauðlindina á Íslandi. „Við vitum það alveg að þar hefur oft verið hart tekist á.“ Það sé ein mesta gæfa Íslendinga að eiga um 40 prósent af landinu í þjóðlendum og samfélagsleg orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða. „Það er eitthvað sem mínir kollegar í útlöndum segja að sé stórkostleg gæfa okkar.“
Hún telur að EES-samstarfið hafi verið Íslendingum hagfellt og mikilvægt. Það sé hins vegar mikilvægt að gæta hagsmuna okkar gegn EES. „Allt eru þetta fullvalda þjóðir sem eru að taka þátt í EES-samstarfi. En auðvitað erum við með alþjóðlegu samstarfi að framselja einhverskonar valdheimildir. Við erum ekki með skýr ákvæði um það í stjórnarskrá svo dæmi sé tekið, sem ég hef lengi talað fyrir.“
Öll umræðan minni hana á það hversu mikilvægt það sé að ná saman um ákvæði um eignarhald á auðlindum og skýrt afmörkuð framsalsákvæði í stjórnarskrá.