Friðrik Atli Guðmundsson er skráður sem ábyrgðarmaður vefsíðunnar hluthafi.com um stofnun almenningshlutafélags sem gæti fjárfest í endurreisn WOW air. Á vefsíðunni eru einstaklingar og fyrirtæki hvött til að leggja fram „lítilsháttar hlutafé“ í krafti fjöldans til að endurreisa WOW air eða stofna nýtt lággjalda flugfélag.
Síðan var opnuð í gær en treglega gekk fyrir fjölmiðla að fá svör hver eða hverjir stæðu að baki síðunni. Þó var tekið fram að þeir einstaklingar væru ekki tengdir WOW air á nokkurn hátt.
Samkvæmt RÚV er vefsíðan styrkt af byggingarfélagi föður Friðriks, Sólhús ehf. Friðrik staðfesti í samtali við fréttastofu RÚV að það væri hann og byggingarfélag föður hans, Sólhús, sem væru ábyrgir fyrir síðunni en það væri ágætur hópur manna sem stæði að þessu átaki.
Vonast til að almenningur taki sig saman
Friðrik vildi ekki gefa upp hverjir það nákvæmlega væru en það myndi vonandi skýrast á næstunni. Hann sagði að þeir vonuðust til að almenningur tæki sig saman og sameinaðist um að hér á landi væri lággjaldaflugfélag, hvort sem það væri WOW eða nýtt flugfélag.
Hann sagði þetta vera einstaklinga sem væru ekkert frábrugðnir öðrum sem sæju tækifæri í að hafa lággjaldaflugfélag hér á landi. Að öðru leyti gæti hann voðalega lítið sagt eins og staðan væri núna. Hann sagði að fólk hefði haft samband og sýnt þessu áhuga og því gæti hópurinn stækkað enn frekar.
Skúli vissi ekki af síðunni
Greint var frá því í síðustu viku að Skúli hygðist endurvekja rekstur WOW air. Skúli og aðrir lykilstarfsmenn WOW air eru því um þessar mundir að leita að fjármögnunar upp á 40 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 4,8 milljörðum króna, til að standa straum af kostnaði við upphaf rekstursins.
Á síðunni, hluthafi.com, segir að með hverjum deginum muni Skúla og hans fólki reynast erfiðara að endurreisa WOW. Þar af leiðandi sé nauðsynlegt að almenningur komi að stofnun almenningshlutafélags sem gæti fjárfest í nýju flugfélagi. Þá segir að ef náist að safna minnst 10 til 20 þúsund hluthöfum þá sé hægt að stofna almenningshlutafélag sem myndi fjárfesta í WOW air eða nýju lággjaldaflugfélagi.
„Við teljum að ef Skúli og hans besta fólk getur endurreist WOW air þá eigum við sem einstaklingar í þessu landi að sameinast um að hjálpa til. Því hvetjum við einstaklinga og fyrirtæki til að leggja fram lítils háttar hlutafé í krafti fjöldans og tryggja rekstur WOW air til framtíðar.“
Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, sagðist í kvöldfréttum RÚV í gær ekkert vita um þessa síðu en netafbrotadeildin ætlar að skoða hana á dag.