„Dylgjur sem fram koma í ofangreindri umfjöllun Eyjunnar bera vitni um málefnafátækt þeirra sem hafa ákveðið að berjast gegn þriðja orkupakkanum með öðru en rökum. Vonandi verður hægt að ræða þetta mál með málefnalegri hætti í framtíðinni.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri færslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á Facebook, þar sem hann fjallar um umfjöllun sem birtist á Eyjunni.is, sem Frjáls fjölmiðlun rekur, þar sem fjallað er um eignarhald á jörð sem er á áhrifasvæði Búlandsvirkjunar. Er þetta eignarhald sett í samhengi við mögulega hagsmuni vegna þriðja orkupakkans svonefnda.
Guðlaugur Þór segir að jörð sem félag í eigu Ágústu hafi keypt árið 2015, sé skógræktarjörð sem tengdarforeldrar hans hafi ræktað upp síðan 1982. „Hvorki ég né fjölskylda mín eigum nokkra aðild að áformum um þá virkjun. Ef svo ólíklega færi að hún yrði að veruleika yrðu áhrifin á Tungufljót og umhverfi þess afar neikvæð. Vonandi eru allar hugmyndir um þessa virkjun út af borðinu um alla framtíð. Um það erum við fjölskyldan öll sammála,“ segir Guðlaugur Þór.
Orðrétt segir í yfirlýsingu hans, vegna málsins:
Vegna fréttar Eyjunnar fyrr í dag, 15. apríl, um hagsmunaskráningu mína á vef Alþingis vil ég taka eftirfarandi fram:
1. Reglur forsætisnefndar Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings, sem einnig taka til ráðherra, taka ekki til eigna eða skulda maka. Þetta hefur skrifstofa Alþingis staðfest við mig. Hagsmunaskráning mín er í fullu samræmi við þessar reglur.
2. Ágústa Johnson, eiginkona mín, hefur verið í eigin atvinnurekstri í rúma þrjá áratugi eins og flestum landsmönnum ætti að vera kunnugt um. Jörðin sem um ræðir er skógræktarjörð sem tengdaforeldrar mínir hafa ræktað upp síðan 1982. Félag, sem er í eigu Ágústu, keypti jörðina árið 2015 en hún hafði verið til sölu í nokkur ár þar á undan.
3. Allt tal um að mín fjölskylda hagnist á Búlandsvirkjun, hvað þá um milljarða króna, er fjarstæðukennt. Búlandsvirkjun er ekki í orkunýtingarflokki núgildandi rammaáætlunar. Hvorki ég né fjölskylda mín eigum nokkra aðild að áformum um þá virkjun. Ef svo ólíklega færi að hún yrði að veruleika yrðu áhrifin á Tungufljót og umhverfi þess afar neikvæð. Vonandi eru allar hugmyndir um þessa virkjun út af borðinu um alla framtíð. Um það erum við fjölskyldan öll sammála.
4. Samþykkt eða höfnun þriðja orkupakkans hefur engin áhrif á hagsmuni landeigenda á hugsanlegum virkjanasvæðum enda fjallar þriðji orkupakkinn hvorki um eignarhald né nýtingu á auðlindum. Staðreyndin er enn fremur sú að með innleiðingu þriðja orkupakkans eins og lagt er til eru settar enn frekari skorður við lagningu rafmagnssæstrengs en nú eru við lýði.
5. Dylgjur sem fram koma í ofangreindri umfjöllun Eyjunnar bera vitni um málefnafátækt þeirra sem hafa ákveðið að berjast gegn þriðja orkupakkanum með öðru en rökum. Vonandi verður hægt að ræða þetta mál með málefnalegri hætti í framtíðinni.