„Sé litið til þess að nú er verið að byggja þúsundir íbúða á höfuðborgarsvæðinu, að um 7.700 munu verða fullkláraðar í ár og á næstu tveimur árum og að þessar íbúðir séu væntanlega of stórar og dýrar til þess að leysa þann vanda sem fyrir er, þá er væntanlega vandi á höndum.“
Þetta segir í nýrri Hagsjá Landsbankans Íslands, þar sem fjallað er um stöðuna á fasteignamarkaði, undir fyrirsögninni: Verður byggt alltof mikið af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu?
Í umfjölluninni segir að upplýsingar um stöðuna á fasteignamarkaði séu af skornum skammti, og að ekki liggi fyrir uppfærðar upplýsingar frá Hagstofunni um hvernig staðan er í raun og veru á markaðnum, það er hversu mikið sé byggt og um hvaða tegund er að ræða á hverjum stað.
Segir í umfjölluninni að áreiðanlegustu upplýsingarnar sem liggi fyrir, séu upplýsingar sem hafi komið úr talningu Samtaka iðnaðarins. „Hagstofan hefur enn ekki birt upplýsingar um byggingu íbúðarhúsnæðis á síðasta ári. Upplýsingastreymi um byggingarstarfsemi hefur ekki batnað mikið í núverandi uppsveiflu og enn renna menn jafnt blint í sjóinn með byggingarmagn, staðsetningu og tegundir húsnæðis í byggingu,“ segir í umfjölluninni.
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar, frá 2017, var byrjað að byggja um 2.200 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2017 og lokið við að byggja um 1.370 íbúðir.
Samtök iðnaðarins hafa um árabil talið íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í helstu byggðakjörnum landsins tvisvar á ári. „Niðurstöður SI hafa á síðustu árum verið einu áreiðanlegu heimildirnar um byggingu íbúðarhúsnæðis en mikill skortur hefur verið á haldbærum opinberum upplýsingum,“ segir í umfjöllun í Hagsjánni.
Nýjustu upplýsingar SI um byggingarmagn eru frá því í mars 2019. Samkvæmt þeim eru byggingar íbúðarhúsnæðis enn að aukast, en heldur hægir þó á vexti. Þannig jókst fjöldi íbúða í byggingu sem eru fokheldar og lengra komnar um 12 prósent frá síðustu mælingu í október 2018, en íbúðum sem ekki voru orðnar fokheldar fækkaði um 4 prósent. Þetta er sagt benda sterklega til þess að frekar sé verið að draga úr starfsemi en hitt.
„Þessi þróun sést enn betur ef einungis er litið til byggingar á fjölbýli, en þar fjölgaði íbúðum sem voru fokheldar og lengra komnar um 24 prósent, en íbúðum að fokheldu fækkaði um 12 prósent. Það lítur því út fyrir að verkefni í fjölbýli fari síður af stað en verið hefur,“ segir í Hagsjánni.
Allar þær tillögur sem hafa verið lagðar fram til þess að leysa meintan vanda snúa í þá átt að það þurfi að stórauka byggingu á litlu og hentugu húsnæði. „Það er því ákveðin hætta á því að framboð veigamikils hluta íbúða sem nú eru á teikniborðinu og í byggingu geti orðið mun meira en eftirspurn á næstu árum,“ segir í Hagsjánni.
Skýr merki um kólnun á fasteignamarkaði hafa sést að undanförnu, eftir miklar hækkanir á markaðnum á undanförnum árum. Vorið 2017 mældist árshækkun á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu 23,5 prósent, en í febrúar mældist eitt prósent lækkun, en það var mesta lækkun milli mánaða frá því í desember 2010.