Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda jókst um 2,2 prósent milli áranna 2016 og 2017. Þetta kemur fram í frétt Umhverfisstofnunar í dag.
Upplýsingar um losun Íslands má finna í skýrslu Umhverfisstofnunar (National Inventory Report – NIR) um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) sem var birt í dag.
Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, þróun frá 1990 til 2017, ásamt lýsingu á aðferðafræðinni sem notuð er til að meta losunina.
Aukning ferðamanna og almenn neysla hefur áhrif
Samdráttur í losun var 5,4 prósent yfir tímabilið 2005 til 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur hins vegar verið nokkuð stöðug síðan 2012, þrátt fyrir aðgerðir til að stemma stigu við losun. Samkvæmt Umhverfisstofnun má meðal annars reka það til aukningar ferðamanna á Íslandi og hins vegar aukningu almennrar neyslu.
Helstu uppsprettur sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda eru vegasamgöngur, olíunotkun á fiskiskipum, iðragerjun, losun frá kælimiðlum og losun frá urðunarstöðum.
Fyrir utan fyrrnefnda losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda tekur skýrslan einnig á losun frá stóriðju undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Árið 2017 féllu 39 prósent af heildarlosun Íslands undir ETS og var þar 2,8 prósent aukning í losun innan kerfisins milli 2016 og 2017, samkvæmt frétt Umhverfisstofnunar.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi, það er losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda og ETS samtals, jókst þar af leiðandi um 2,5 prósent milli 2016 og 2017. Þessar tölur innihalda ekki losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF). Losun frá LULUCF telur ekki til skuldbindinga, þó hún sé metin og gert grein fyrir henni í skýrslunni, og er hún þess vegna ekki innifalin í umfjöllun um heildarlosun Íslands. Hins vegar má Ísland telja hluta af kolefnisbindingu á móti losuninni. Flug (alþjóða- og innanlands) og alþjóðasiglingar telja ekki heldur til skuldbindinga.
Aukin losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum og nytjajarðvegi
Meginástæður fyrir aukningu í losun milli 2016 og 2017, án landnotkunar, er aukin losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum og frá nytjajarðvegi. Þrátt fyrir að heildarlosunin hafi aukist milli ára, hefur losun dregist saman frá ákveðnum uppsprettum, segir í frétt Umhverfisstofnunar. Þar megi nefna sem dæmi losun frá framleiðsluiðnaði, meðal annars frá fiskimjölsverksmiðjum, sem hafi dregist saman um 9 prósent og losun frá urðunarstöðum sem hafi dregist saman um 3 prósent.