Samgöngustofa hefur hafnað kröfum farþega sem vildu að WOW air myndi greiða þeim bætur vegna mikillar seinkunar sem varð á flugi félagsins til og frá Montreal í Kanada í mars á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
22 klukkustunda seinkun varð því á brottför frá Kanada og þeir farþegar sem voru að koma til Montreal fengu ekki að yfirgefa vél WOW fyrr en rúmum tveimur tímum eftir að hún lenti.
Samgöngustofa taldi töfina mega rekja til óviðráðanlegra aðstæðna en maurar fundust um borð í vélinni. Farþegarnir sem kröfðu WOW um bætur voru annars vegar að koma til Montreal eða áttu bókað flug til Keflavíkur frá kanadísku borginni.
Maurar um borð
Í úrskurði Samgöngustofu kemur fram að þegar vélin var á leið til Montreal hafi áhöfnin orðið vör við maura um borð. Yfirvöldum í Kanada var tilkynnt um þessa óboðnu gesti sem yfirtóku vélina þegar hún lenti á flugvellinum. Var vélin síðan í haldi yfirvalda í um það bil tuttugu klukkustundir.
Samkvæmt RÚV sagði WOW air í svari sínu til Samgöngustofu að flugfélagið hefði gert allt til takmarka röskun á ferðum farþega vegna þessa. Það hafi enn fremur tekið fram að ómögulegt hefði verið að koma í veg fyrir að maurarnir kæmust um borð í vélina. Samgöngustofa tók undir með flugfélaginu og taldi að það væri hægt að flokka það sem óviðráðanlegar aðstæður þegar yfirvöld yfirtaki vél. Var kröfum farþeganna því hafnað.