Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem þær krefjast þess að stjórnvöld upplýsi um hvernig þær skattalækkanir sem samið var um í „lífskjarasamningnum“ verði framkvæmdar.
Þegar ritað var undir kjarasamninga fyrir 110 þúsund manns, rúmlega helming íslensks vinnumarkaðar, í byrjun apríl þá var það gert á grundvelli þess að stjórnvöld skuldbundu sig til að ráðast í alls 42 aðgerðir til að liðka fyrir gerð þeirra.
Ein þeirra aðgerða, og sú sem skipti einna mestu máli, fólst í að gera breytingar á tekjuskattskerfinu með því að bæta við þriðja skattþrepinu sem tryggja m.a. lægstu launahópunum tíu þúsund króna skattalækkun á mánuði.
Þær segja að skattkerfisbreytingarnar þurfi að koma gratt til framkvæmda og án undanbragða og að fulltrúar vinnandi fólks muni ekki sætta sig við að þær verði innleiddar á næstu þremur árum. „Á þeim félagsfundum sem undirritaðar hafa setið, þar sem samningarnir og yfirlýsing stjórnvalda hefur verið kynnt, leggja félagsmenn mikla áherslu á skjót svör af hálfu stjórnvalda. Öll spjót standa því á stjórnvöldum að svara kalli vinnandi fólks og upplýsa um það hvernig fyrirhugaðar skattalækkanir verða framkvæmdar. “