Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það vera ábyrgðarhluta að næra reiði fólk eins og stundum megi sjá stjórnmálamenn gera á kaldrifjaðan hátt til að valdefla sig. Það sé hættulegt. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans í dag.
Ástæðan fyrir skrifum Guðmundar Andra er atvik sem hann lenti í þegar hann var staddur í matvörubúð en maður einn jós yfir hann skömmum fyrir hina ýmsu hluti; hvílíkur lygari hann væri og viðbjóður og að hann vildi flytja inn í landið barnaníðinga frá Svíþjóð, hvort hann vissi ekki hvernig ástandið væri í Svíþjóð. Guðmundur Andri segir að maðurinn hafi titrað af reiði. „Hann var svo hræddur við alla múslimana sem hingað væru á leiðinni frá Svíþjóð og reiður mér fyrir að standa fyrir þessum innflutningi.“
Kallaði hann „Samfylkingardrullu“
„Hann leit út eins og hver annar „sorrí-með-mig“-Garðbæingur (sbr. Baggalútslagið); í fallegum ullarjakka og með vandaðan gráan trefil vafinn um hálsinn, í hvítum jogging-buxum og með hannaða hárklippingu, með hárbrúski og rakstri. Verðbréfagutti í kasúal klæðnaði. En hann var samt ekki alveg þessháttar maður – þeir gangast upp í að vera vonda fólkið og eru fullir af pólitískum rangtrúnaði, en eru ekki slæmir náungar í rauninni. Held ég. Að minnsta kosti yfirleitt í góðu skapi – held ég.
Nema hvað, ég sá hann ekki alveg strax, þarna í Hagkaupsbúðinni í Garðabæ í fyrrakvöld, nýkominn að norðan að kaupa ýmsar nauðsynjar fyrir heimilið. Ég heyrði hins vegar í honum þegar ég var nýkominn inn: „Samfylkingardrulla“.
Mér brá svolítið, horfði strangur á svip – og ég get verið mjög strangur á svip – á saklausan unglingahóp sem ráfaði þarna um skríkjandi í hálfgerðu reiðuleysi. Og reiðileysi: ekki þau. Ég hélt áfram að safna í körfuna, tómötum, banönum, kaffi, kattamat ... þá heyrði ég aftur ókvæðisorð og leit upp, sá engan en þegar ég steig nokkur skref til hliðar sá ég hann þar sem hann horfði á mig æstur,“ skrifar þingmaðurinn.
Bað hann um að hætta að áreita sig
„„Ertu að tala við mig?“ spurði ég og þá kom ný gusa um það hvílíkur lygari ég væri og viðbjóður, ég vildi flytja inn í landið barnaníðinga frá Svíþjóð, hvort ég vissi ekki hvernig ástandið væri í Svíþjóð. Hann titraði af reiði. Hann var svo hræddur við alla múslimana sem hingað væru á leiðinni frá Svíþjóð og reiður mér fyrir að standa fyrir þessum innflutningi.
Ég lagði ekki í að spyrja hann hvað honum fyndist um 3. orkupakkann en sagði honum að hætta að áreita mig, annars myndi ég kalla á öryggisvörð og fór. Það var einhver óhugur í mér,“ heldur Guðmundur Andri áfram.
„Svona leit hann þá út, reiði maðurinn í athugasemdakerfunum“
Guðmundur Andri segist aldrei áður hafa staðið augliti til auglitis við netbræðina eins og hún lítur út í raunveruleikanum. „Svona leit hann þá út, reiði maðurinn í athugasemdakerfunum. Kannski var þetta veikur maður en það sem vall upp úr honum var sami reiðilesturinn og við getum daglega séð á netmiðlum og heyrt skötuhjúin á útvarpi Sögu draga upp úr viðmælendum sínum til að eitra hugi vesalings gamla fólksins sem hefur ekki lengur Sagnaslóð í útvarpinu að hlusta á.“
Hann lýkur máli sínu með því að segja að vissulega sé þetta sálsýkisþrugl en sett saman úr einföldum staðhæfingum sem beinist að djúprættum kenndum í mannfólkinu, ótta og reiði og vanþekkingu í jöfnum hlutföllum og löngun til að finna reiðikróka til að hengja vanlíðanina á.