Kauphöll Íslands hefur hafnað beiðni Heimavalla um afskráningu af aðalmarkaði kauphallarinanr, og í tilkynningu frá henni segir að afskráningin geti valdið hluthöfum verulegu tjóni og um leið dregið úr trúverðugleika markaðarins.
Aðalfundur Heimavalla samþykkti með 81,3 prósent atkvæða tillögu um töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar en hluthafar að baki 18,7 prósent atkvæða höfnuðu tillögunni.
„Verulega mun draga úr seljanleika hlutabréfa félagsins ef beiðni félagsins um töku hlutabréfa þess úr viðskiptum nær fram að ganga. Einnig er ljóst að við töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum tapast sú fjárfestavernd sem hluthafar njóta samkvæmt lögum og reglum er lúta að verðbréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Hér má t.d. nefna reglur um upplýsingaskyldu og viðskipti innherja. Gera má ráð fyrir því að margir hluthafar sem tóku þátt í útboði félagsins þegar hlutabréf þess voru tekin til viðskipta í maí 2018 hafi gert það á grundvelli þess að hlutabréfin yrðu eftir það í viðskiptum á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Þá hafi ekki komið fram upplýsingar um stefnu félagsins eftir að hlutabréf félagsins hafi verið tekin úr viðskiptum til að hluthafar geti metið hag sinn af því að halda í hlut sinn,“ segir í tilkynningunni.
Félög sem eiga samtals um 19 prósenta hlut í Heimavöllum lögðu til afskráninguna á aðalfundi.
Þegar beiðnin var lögð fram hafði gengi bréfa félagsis lækkað, og skráningin því ekki fært hluthöfum ávinning sem að var stefnt.
Markaðsvirði félagsins er nú um 14 milljarðar króna, en heildareignir félagsins, sem aðallega eru bundnar í fasteignum í útleigu, námu 56,8 milljörðum í árslok.