Ósamræmi er í upplýsingum um eignarhlut Kaupfélags Skagfirðinga (KS) í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, sem birtust í viðtali við Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra, í blaðinu á miðvikudag, og þeim upplýsingum sem birtar eru á heimasíðu Fjölmiðlanefndar.
Í viðtalinu við Þórólf kom fram að KS ætti ríflega fimmtungshlut, eða yfir 20 prósent, í Þórsmörk ehf., eiganda Árvakurs. Samkvæmt skráningu sem birt er á heimasíðu fjölmiðlanefndar segir að KS eigi, í gegnum dótturfélagið Íslenskar sjávarafurðir ehf., 15,84 prósent hlut í Þórsmörk.
Samkvæmt lögum um fjölmiðla á að tilkynna henni um allar eigendabreytingar á fjölmiðlum innan tveggja virkra daga frá því að kaupsamningur er gerður. Í ljósi þess að hlutafjáraukning í Árvakri var skráð 21. janúar síðastliðinn þá hefur ekki verið farið eftir ofangreindum lögum um skráningu á eignarhaldi, enda má ekki skrá nýtt hlutafé nema að það hafi þegar verið greitt.
Heimild til að auka hlutafé um allt að 400 milljónir
Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins, mbl.is og útvarpsstöðvarinnar K100. Félagið er eina eign Þórsmerkur. Árvakur hefur glímt við mikinn hallarekstur á undanförnum árum og hluthafar þess hafa ítrekað þurft að leggja útgáfunni til fé.
Tap félagsins á árinu 2017 var til að mynda 284 milljónir króna. Það var fimmfalt meira tap en árið 2016. Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009 og fram til loka árs 2017 tapaði félagið tæplega 1,8 milljörðum króna. Þótt ársreikningur fyrir árið 2018 hafi ekki verið birtur virðist ljóst að Árvakur hélt áfram að tapa peningum í fyrra.
Kjarninn greindi frá því í febrúar síðastliðnum að hlutafé í Þórsmörk, eiganda Árvakurs, hefði verið aukið um 200 milljónir króna þann 21. janúar 2019. Auk þess var samþykktum félagsins breytt á þann veg að stjórn þess er heimilt að hækka hlutaféð um allt að 400 milljónir króna til viðbótar með útgáfu nýrra hluta. Sú heimild gildir til ársloka 2019.
KS setti 100 milljónir inn í byrjun árs
Í Fréttablaðinu sama dag var haft eftir Sigurbirni Magnússyni, stjórnarformanni Þórsmerkur, að hlutafjáraukningin hefði öll komið frá þeim hluthöfum sem fyrir voru.
Því hefði hluthafahópur félagsins ekki tekið breytingum. Ekkert var hins vegar greint frá því hverjir úr hluthafahópnum hefðu lagt félaginu til nýtt fé.
Miðað við þær upplýsingar sem birtust í viðtalinu við Þórólf þá hefur KS lagt til að minnsta kosti helming þess nýja hlutafjár sem lagt var inn í Þórsmörk í janúar, eða 100 milljónir króna. Áður átti félagið 225 milljónir hluta af 1.421 milljóna hlutafé. Nú á KS að minnsta kosti 20 prósent af 1.621 milljón hlutafé, eða að minnsta kosti 325 milljónir hluta.
Stærsti eigandi Þórsmerkur eru félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja. Fyrir hlutafjáraukninguna í janúar áttu þau tæplega 30 prósent í félaginu.
Flestir aðrir eigendur Þórsmerkur tengjast sjávarútvegi.
Kaupfélagsstjórinn telur vandaða fjölmiðla mikilvæga
Í viðtalinu við Morgunblaðið á miðvikudag var Þórólfur spurður um það hvað varð til þess KS ákvað að fjárfesta í fjölmiðlarekstri. „Við lítum þannig á að það sé mikilvægt að til staðar séu vandaðir fjölmiðlar sem ekki eru ríkisreknir. Ríkið er fyrirferðarmikið á þessum markaði sem er ekki hollt til lengdar, og í raun mjög umhugsunarvert, enda þörfin ekki eins brýn og áður var. Ríkið rak einu sinni dreifikerfi á kartöflum, en er hætt því sem dæmi. Þessi mikli rekstur ríkisins á fjölmiðlum býður upp á ákveðna hættu. Að fjölmiðillinn verði ríki í ríkiskerfinu og leiði skoðanamyndun. Við þekkjum það í löndum þar sem ekki er virkt lýðræði, að þar eru ríkisfjölmiðlar mjög fyrirferðarmiklir.“
Í kjölfar þess að nýir eigendur tóku við Morgunblaðinu á árinu 2009 voru Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og seðlabankastjóri, og Haraldur Johannessen, sem hafði verið ritstjóri og eigandi Viðskiptablaðsins, ráðnir ritstjórar Morgunblaðsins. Þeir sinna enn því starfi.
Þegar þeir voru ráðnir lásu 43 prósent landsmanna Morgunblaðið. Í síðustu mælingu Gallup á lestri blaðsins mældist hann 23,9 prósent.