Flöggun hefur verið birt í tilkynningakerfi Kauphallar Íslands vegna þess að Íslandsbanki fer nú með 5,28 prósent atkvæðisrétta í Kviku banka. Það gerðist eftir að bankinn keypti umtalsverðan hlut í Kviku í dag og heldur nú á 5,28 prósent af útgefnu hlutafé.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er um framvirka samninga að ræða sem Íslandsbanki gerir fyrir valda viðskiptavini sína, en ekki viðskipti fyrir eigin bók. Bankinn er nú skráður fjórði stærsti eigandi Kviku banka. Íslandsbanki er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, greindi frá því nýverið að Sigurður Bollason, einn stærsti hluthafi Kviku, hefði verið að byggja upp stöðu í Arion banka og að sú staða væri meðal annars fjármögnuð í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka. Alls ætti hann og félög tengd honum um tvö prósent hlut í Arion banka.
Ekki hefur verið opinberað hvaða aðrir viðskiptavinir Íslandsbanka hafa gert framvirka samninga um fjárfestingar í bönkum sem skráðir eru á markaði né hver gildistími samningsins er.
Stærsti einstaki eigandi Kviku banka er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 9,49 prósent hlut. Þar á eftir kemur félagið K2B fjárfestingar í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, en það félag á 7,7 prósent hlut. Vátryggingafélag Íslands, þar sem Svanhildur Nanna er stjórnarmaður og stór fjárfestir í gegnum K2B fjárfestingar, er svo þriðji stærsti eigandi Kviku með 6,45 prósent eignarhlut.
Áðurnefndur Sigurður Bollason er stærsti eigandi RES II ehf., sem er fjórði stærsti eigandi Kviku.
Hinir tveir stóru bankarnir, Arion banki (4,93 prósent) og ríkisbankinn Landsbankinn (3,67 prósent), eru einnig skráðir á meðal stærstu eigenda Kviku banka.