Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er nú í þriðja sæti á lista formanna Sjálfstæðisflokksins sem lengst hafa setið.
Bjarni var kjörinn formaður flokksins á landsfundi flokksins í Laugardalshöll þann 29. mars 2009 og hefur því setið í rúm tíu ár. Hann sigraði Kristján Þór Júlíusson nokkuð örugglega en hann hlaut 58 prósent greiddra atkvæða á móti 40,4 prósent sem Kristján hlaut.
Ólafur Thors var aftur á móti formaður Sjálfstæðisflokksins lengur en nokkur annar, frá 2. október 1934 til 22. október 1961 eða í 27 ár. Hann var jafnframt forsætisráðherra Íslands samanlagt í um það bil áratug.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, vermir annað sætið en hann var formaður flokksins frá 10. mars 1991 til 16. október 2005 eða í rúm fjórtán ár. Hann var forsætisráðherra Íslands frá árinu 1991 til ársins 2004 lengst allra, en hann var einnig borgarstjóri í Reykjavík frá árinu 1982 til 1991 og utanríkisráðherra frá 2004 til 2005.
Bjarni Benediktsson, alnafni og frændi núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, er í fimmta sæti á lista formanna sem lengst hafa setið. Hann var formaður frá 22. október 1961 til 10. júlí 1070 eða í tæp níu ár.
Geir H. Haarde var formaður næst styst eða í tæp fjögur ár, frá 16. október 2005 til 29. mars 2009.