Valitor segir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að fallast að hluta á skaðabótakröfur Sunshine Press Productions og Datacell koma mjög á óvart. Valitor hefur verið gert að greiða SPP og Datachell 1,2 milljarða króna í skaðabætur fyrir að slíta samningi um greiðslugátt fyrirvaralaust. Í tilkynningu frá greiðslukortafyritækinu segir að verið sé að fara yfir dómsniðurstöðuna og að þeir muni væntanlega áfrýja málinu til Landsréttar.
Segja að fyrirtækið hafi aldrei átt í viðskiptasambandi við SPP
Á fjórða tímanum í dag var greint frá því að Valitor hefði verið dæmt að greiða Sunshine Press 1140 milljónir króna og Datacell 60 milljónir króna vegna ólögmætrar riftunar Valitors. Fjölmiðillinn Wikileaks tók við styrkjum fyrir starfsemi sína í gegnum greiðslugátt sem Datacell og Sunshine Press Production ráku. Greiðslugáttin var opnuð 7. júlí 2011 en degi síðar sleit Valitor samningnum fyrirvaralaust. Með dómi árið 2013 komst Hæstiréttur að því að riftunin hafi veri ólögmæt, og hefur síðan verið deilt um skaðann og skaðabætur vegna fyrrnefndrar aðgerðar.
Í tilkynningu frá Valitor segir að niðurstaða dómstólsins sæti furðu, sérstaklega varðandi SPP sem hafi aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Jafnframt segir að SPP hafi aldrei haft nema hverfandi tekjur en gerði engu að síður margra milljarða dómkröfur á hendur fyrirtækinu. „Valitor hefur frá upphafi bent á að enginn grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP en meirihluti héraðsdóms kemst að annarri niðurstöðu í dag. Hins vegar skilaði einn þriggja dómara séráliti og vildi sýkna Valitor alfarið enda hafi ekkert tjón verið sannað,“ segir í tilkynningunni.
Enn fremur segir að Valitor sé að fara yfir dómsniðurstöðuna og muni væntanlega áfrýja málinu til Landsréttar. Valitor er dótturfélag Arion banka og fjárhagslegur bakhjarl félagsins í þessu máli.