Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, hefur verið ráðinn forstjóri Sýnar og hættir um leið sem stjórnarformaður félagsins. Hann er jafnframt einn stærsti hluthafi félagsins með 6,4 prósent hlut í gegnum Ursus ehf.
Hjörleifur Pálsson tekur við sem stjórnarformaður Sýnar, að því er fram kemur í tilkynningu til kauphallar.
Sigríðar Vala Halldórsdóttir tekur sæti í stjórn félagsins við þessar breytingar.
„Framundan eru krefjandi verkefni, sem ég hlakka til að leysa af hendi í samstarfi við allt það framúrskarandi fólk sem starfar hjá Sýn hf,“ er haft eftir Heiðari í tilkynningunni.
Óhætt er að segja að Sýn hafi gengið í gegnum mikla erfiðleika undanfarin misseri, en markaðsvirði félagsins hefur lækkað um 54 prósent á undanförnu ári.
Stefán Sigurðsson hætti sem forstjóri Sýnar í febrúar og tók Heiðar þá meira við stjórnartaumunum í daglegum rekstri. Stefán léta hafa eftir sér þegar hann hætti, að hann vildi meðal annars með þessu axla ábyrgð á því að afkomuáætlanir hafi ekki gengið eftir.
Markaðsvirði Sýnar er um þessar mundir 9,6 milljarðar króna.