Icelandair ætlar að ræða við flugvélaframleiðandann Boeing og sækja skaðabætur vegna kyrrsetningar á 737 Max vélum fyrirtækisins, en til hennar var gripið á alþjóðavísu, í kjölfar tveggja flugslysa í Indónesíu og Eþíópu, sem leiddu til þess að allir um borð í Max vélum létust, samtals 346.
„Við höfum rætt við Boeing um að við munum þurfa að fara í slíkar viðræður,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við fréttastofu RÚV í dag.
Icelandair hefur fest kaup á níu Max-vélum frá Boeing, eins og greint hefur verið frá, en þrjár vélar eru nú kyrrsettar.
Félagið reiðir sig á Max vélar í sínu leiðakerfi og þjónustu til framtíðar, en samkvæmt tilkynningu félagsins þá miðar Icelandair við að Max vélarnar komi aftur í notkun 16. júní.
Ekkert liggur þó fyrir um hvenær hægt verður að notast við flugvélarnar í alþjóðaflugi á nýjan leik, en Boeing sagði í tilkynningu í gær, vegna uppgjörs á fyrstu þremur mánuðum ársins, að Boeing hefði fullt traust á vélunum, þrátt fyrir slysin skelfilegu.
Rannsóknir á flugslysunum tveimur beinast meðal annars að MCAS-kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi, en lokaniðurstöður úr rannsóknunum á flugslysunum tveimur liggja ekki fyrir, frá flugmálayfirvöldum í Indónesíu og Eþíópíu.
Bandaríska fjárfestingafélagið PAR Capital Management er nú orðinn næst stærsti hluthafi Icelandair með 11,3 prósent hlut, eftir að hluthafafundur Icelandair samþykkti kaupin í gær. PAR Capital er alþjóðlegur risi í ferðaþjónustu, og á meðal annars eignarhluti í Southwest, Delta, Jetblue, Trip Advisor, Booking og Expedia.
Eigið fé Icelandair var 55 milljarðar í árslok í fyrra og skuldir félagsins námu 110 milljörðum króna.
Fleiri félög hafa tilkynnt um viðræður við Boeing vegna vanda Max véla. Norska félagið Norwegian hefur tilkynnt um að félagið ætli sér að semja við Boeing á nýjan leik - og jafnvel sækja bætur - vegna stöðunnar sem uppi er komin með Max vélarnar. Félagið hefur fest kaup á alls 18 Max vélum, og er ekkert flugfélag í Evrópu með stærri pöntun af þeirri tegund véla. Norwegian hefur nú samið um að fresta afhendingu á 14 Max vélum sem áttu að koma í flota félagsins 2020 og 2021, að því er segir í frétt Seattle Times.