Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að verkalýðshreyfingin hafni því að hægt sé að taka stórar og umdeildar ákvarðanir, á borð við þriðja orkupakkann, án þess að fullkomið traust og sátt ríki um málið. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag. Hann segir málið óneitanlega lykta af sérhagsmunapoti.
Hann spyr jafnframt hvort Íslendingar geti treyst kjörnum fulltrúum til að taka svo stórar ákvarðanir sem snúa að orkumálum þjóðarinnar. „Svona miðað við allt sem á undan er gengið?“
Ragnar Þór telur að „hin ofsafengnu viðbrögð þekktra hagsmunaafla við réttmætum spurningum og gagnrýni“ gefi svo sannarlega tilefni til að staldra við.
Fólk ætti ekki að hafa áhyggjur af grunnþörfum
„Getum við gert þá kröfu að tekin verði afstaða í svo umdeildu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin tekið upplýsta ákvörðun út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir og þeirri reynslu sem við höfum á markaðsvæðingu innviða?“ spyr Ragnar Þór.
Hann segir að í nýjum lífskjarasamningi sem samþykktur var af stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar hafi þau lagt áherslu á að ná kostnaði niður og auka þannig kaupmátt í bland við launahækkanir í stað þess að berjast eingöngu fyrir fleiri krónum til að fóðra kröfuna um gróða og endalausar hækkanir á grunnþörfum.
„Og að félagsmenn okkar þurfi ekki að hafa áhyggjur af grunnþörfum eins og rafmagni, vatni eða húshitun. Að kostnaði við að lifa verði haldið í lágmarki og bæta þannig lífskjör til skemmri og lengri tíma, fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir,“ skrifar hann.
Mikið undir
Ragnar Þór bendir á að mikið sé undir fyrir félagsmenn þeirra og fyrirtækin. Hærri orka þýði hærra vöruverð og lægri kaupmátt og lakari samkeppnishæfni. Hærri orkuverð dragi úr möguleikum Íslendinga til meiri sjálfbærni.
Hann telur því einfaldlega of mikið vera undir. „Sagan hefur því miður kennt okkur allt annað en lobbíistar sérhagsmunaafla keppast við að sannfæra okkur um.
Við erum kynslóðin sem hófum einkavæðingu innviða. Verum kynslóðin sem steig niður fæti!
Ég treysti því að forsetinn okkar standi undir nafni og vísi þessari ákvörðun til þjóðarinnar verði málið rekið áfram í gegnum þingið í óbreyttri mynd,“ skrifar Ragnar Þór að lokum.
Smá orkupakka hugleiðing inn í sumarið. Einkavæðing innviða eða markaðsvæðing grunnstoða samfélagsins hefur ekki...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Thursday, April 25, 2019