Verðlag á Íslandi var 84 prósent hærra á Íslandi árið 2017 en meðaltalsverðlag í löndum Evrópusambandsins. Það gerir Ísland að dýrasta landi í Evrópu og að öllum líkindum að einum dýrasta áfangastað i í heimi fyrir ferðamenn.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Íslandsbanka. Þar segir enn fremur að verðlag á sömu vörum og þjónustu þeirra landa sem eru til samanburðar í greiningunni hafi hækkað langt umfram verðlag síðastliðinn áratug eða svo.
Í greiningunni kemur fram að verðlag hér á landi hafi verið 32 prósent hærra en að meðaltali í aðildarríkjum Evrópusambandsins árið 2010. Frá þeim tíma hefur munurinn á verðlagi hér og meðaltals ríkja Evrópusambandsins hækkað um 52 prósentustig. „Krónan styrktist á sama tímabili um 26 prósent og má því gróflega áætla að gengisáhrif skýri um helming áðurgreindrar hækkunar. Restin hlýtur þá að skýrast af innlendum verðlagshækkunum umfram þær sem áttu sér stað hjá öðrum þjóðum sem hér eru til samanburðar.“
Íslandsbanki bendir á að verðlag hafi verið hæst hérlendis á árinu2017 í sex af sjö vöru- og þjónustuflokkum sem skoðaðir voru. „Áðurgreind hækkun á verðlagi hérlendis samanborið við verðlag annarra Evrópuþjóða er að mestu vegna hækkunar á áfengum drykkjum og gisti- og veitingaþjónustu. Þessir tveir liðir eru bæði þeir dýrustu m.v. verðlag annarra Evrópuþjóða og hafa einnig hækkað mest.“