Fólki og fyrirtækjum býðst nú að gerast þátttakendur í nýju flugfélagi, FlyIcelandic, sem farþegar, fjárfestar og samstarfsaðilar. Vefsíðan flyicelandic.is var opnuð í gær þar sem fram kemur að markmiðið sé að afla stuðnings við annaðhvort nýtt flugfélag eða vildarklúbb sem útvegar félagsmönnum ódýrt flug. Jafnframt segir að FlyIcelandic hafi engin tengsl við WOW air en að þeir sem standi að síðunni hafi áratuga reynslu í flugrekstri og aðgang að Airbus flugvélaflota sem leggur áherslu á plastlaust flug.
Taka saman lista yfir þá hafa áhuga á nýju flugfélagi eða vildarklúbbi
Á heimasíðu FlyIcelandic segir að markmiðið sé að aðstoða íslenska ferðaþjónustu og fyrrum starfsmenn WOW air að komast aftur í loftið á „öruggum starfsgrundvelli“. Þá segir að FlyIcelandic geti annaðhvort orðið að nýju flugfélagi eða vildarklúbbi í samstarfi við nýtt eða starfrækt flugfélagið. „Með samhentu átaki vonumst við til að hægt verði að fylla uppí það skarð sem myndaðist í íslenskum flugsamgöngum við fall WOW air,“ segir á heimasíðunni.
Fólk og fyrirtækjum er boðið að skrá sig á síðunni án skuldbindingar til að fá upplýsingar um framgang verkefnisins og aðgang að forsölu „Ecomiles“ sem samkvæmt síðunni eru flugmílur á heildsöluverði og njóta ýmissa fríðinda sem FlyIcelandic farþegi.
Viðskiptagrunnur fyrir nýtt félag
Jóel Kristinsson, talsmaður FlyIcelandic, segir í samtali við Morgunblaðið að þeir sem standi að hugmyndinni stefni ekki sjálfir að því að reka flugfélag heldur séu þeir að stefna að því að setja upp viðskiptagrunn fyrir nýtt félag. Hann segir verkefnið ekki tengt vefsíðunni hluthafi.com og ekki heldur hugmyndum sem Hreiðar Hermannsson hefur kynnt í vikunni um stofnun nýs íslensks flugfélags.
Á vefsíðunni kemur fram að þeir sem standi að verkefninu hafi „áratuga reynslu í flugrekstri og aðgang að Airbus-flugvélaflota“. Aðgangurinn að flugvélaflotanum er að sögn síðunnar í gegnum JetBanus, fyrirtæki sem leigir út flugvélar sem, samkvæmt Morgunblaðinu, Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsætisframbjóðandi og athafnamaður, kemur að.
Í samtali við Fréttablaðið segir Jóel að um sjötíu manns og fjögur fyrirtæki hafi skráð sig á síðu FlyIcelandic síðdegis í gær. Hann segir jafnframt að þetta sé ekki hópfjármögnun eins heldur sé aðeins verið að bjóða fólki að styðja málstaðinn. „Við erum bara að sjá hvort fólk er tilbúið að taka þátt. Ef það er mikil þátttaka þá er hægt að fara í svoleiðis fjármögnun,“ segir Jóel.