„Það eru ákveðin verðmæti í hræinu á WOW air sem hægt er að nýta til þess að koma á samkeppni aftur. Við leggjum gríðarlega áherslu á það að skiptastjórar og aðrir sem að þessu koma hugi mjög vel að þessu.“
Þetta sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
WOW air fór á hausinn í síðasta mánuði. Í kjölfar þess birti Samkeppniseftirlitið frétt á vef sínum þar sem það beindi því til viðkomandi stjórnvalda og þeirra aðila sem halda á ýmsum eignum WOW air í framhaldi af gjaldþroti að huga að samkeppnislegum áhrifum þeirra ákvarðana sem teknar verða um úrlausn málsins.
Í fréttinni stendur enn fremur: „Að þeir sem koma að úrlausn málsins geri það sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að eignir hverfi ekki af markaðnum, en þess í stað sé gripið til mögulegra ráðstafana sem stuðla að því að samkeppni á íslenskum flugmarkaði sé viðhaldið, eftir því sem framast er unnt. Að flugmálayfirvöld, þ.m.t. samræmingarstjórar á flugvöllum, liðki fyrir því eftir því sem framast er kostur að eignir flugfélaga, óefnislegar sem og efnislegar, sem hætta starfsemi geti nýst nýjum aðilum í rekstri. Er þetta ekki síst mikilvægt á Íslandi sem eðli máls samkvæmt er landfræðilega afmarkaður markaður og hagkerfið byggir að töluverðu leyti á ferðamannaiðnaði. Að skiptastjórar geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja það að eignir hverfi ekki af markaðnum og þar með að samkeppni á íslenskum flugmarkaði sé viðhaldið eftir því sem framast er unnt.“
Páll minnir á hversu mikil áhrif það hafi haft á samkeppni þegar Iceland Express kom inn á markaðinn á sínum tíma og síðan aftur þegar WOW air fór að keppa í Bandaríkjaflugi við Icelandair. „Þessi gróska sem fylgdi því sogaði að sér önnur flugfélög frá útlöndum.“
Ekki sé hægt að treysta á að erlend flugfélög, sem fljúgi fyrst og fremst til Íslands en ekki að uppistöðu frá Íslandi, fylli það skarð fyrir íslenska neytendur sem WOW air skilji eftir sig. Þau hafi ekki sömu íslensku hagsmuni í huga og fyrirtæki sem byggi upp leiðakerfi sitt frá Íslandi, líkt og WOW air gerði. „Þau eru fljót að koma en líka fljót að fara.“