„Efling hefur til dæmis þessi ótrúlegu völd sem eru lífeyrissjóðakerfið þegar kemur að afskiptum af viðskiptalífinu. Nú er það búið að gerast að Efling er komin með tvo stjórnarmenn í stjórn Gildis. Stefán Ólafsson er varaformaður Gildis fyrir hönd Eflingar.“
Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í viðtali við Fréttablaðið í dag þar sem hún boðar að verkalýðshreyfingin muni beita sér mun fastar innan lífeyrissjóðakerfisins en hingað til hefur tíðkast. Hún rifjar upp að íslenskir lífeyrissjóðir hafi haldið íslensku efnahagskerfi uppi eftir hrun. „Sjóðirnir hafa verið notaðir markvisst til að keyra áfram kapítalísku maskínuna án þess að það sé nokkru sinni tekið tillit til hagsmuna vinnuaflsins. Við eigum í gegnum sjóðina að beita áhrifum okkar, ekki síst þegar kemur að fjárfestingum í fyrirtækjum. Þá fáum við raunveruleg völd.“
Segir málflutning í leiðurum Fréttablaðsins ógeðslegan
Í viðtalinu ræðir Sólveig Anna líka nýyfirstaðna kjarasamninga, og þá baráttu sem háð var í aðdraganda þeirra. Hún segist hafa orðið fyrir ærumeiðingum og hafa verið þjófkennd með ógeðslegum málflutningi.
Þar nefnir hún sérstaklega ákveðin leiðaraskrif í Fréttablaðinu. „Leiðarar Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu eru með þvílíkum ólíkindum að þegar ég svaraði þeim mjög harkalega fannst mér ég þurfa að gera það og fannst það mjög skemmtilegt[...]Þetta var árás. Þótt það sé margt sem ég styðst við í kristinni hugmyndafræði þá myndi ég aldrei bjóða hinn vangann.“
Hún gagnrýnir líka það heiti sem stjórnvöld völdu á sitt framlag til þess að láta kjarasamninga ganga saman, hina svokölluðu lífskjarasamninga. „Mér er misboðið yfir þessu svona uppnefni. Í eðli sínu eru allir samningar lífskjarasamningar. Við erum að semja um kjör fólks sem hefur áhrif á líf þess. Það er partur af nýfrjálshyggjunni að vera alltaf að skella einhverjum merkimiðum á allt.“
Sólveig Anna er þó ánægð með það sem stjórnvöld komu með að borðinu til að liðka fyrir gerð samninganna og lítur á það sem sigur að hafa náð þeirri aðkomu. Hún hafi sannarlega ekki staðið til boða við upphaf kjaraviðræðna. „Það skal enginn halda að stjórnvöld komist upp með það að standa ekki við loforðin. Við verðum vakin og sofin yfir því.“
Stjórnlaus frekja
Upp á síðkastið hafa nokkur fyrirtæki boðað verðhækkanir í kjölfar kjarasamninga. Mesta athygli hefur vakið að ÍSAM, eitt stærsta framleiðslu- og innflutningsfyrirtæki sem er í eigu Ísfélagsfjölskyldunnar í Vestmannaeyjum, einnar ríkustu fjölskyldu landsins, ætlar að hækka verð á vörum hjá sér umtalsvert.
Sólveig Anna viðurkennir að sniðganga á vörum sé líkast til bitlaus en segir hótanir fyrirtækjanna um hækkanir ótrúlegar. „Þarna enn eina ferðina afhjúpast afstaða þeirra sem í stjórnlausri frekju sinni trúa því af öllu hjarta að þeirra sé algjört valdið. Ég skil mjög vel þá sem fara í sniðgöngu en á endanum skilar það litlu. Ég held við ættum frekar að koma okkur mjög markvisst frá þeim stað að þurfa að beita slíkum aðgerðum og raunverulega öðlast völd í samfélaginu. Sem við höfum að mörgu leyti nú þegar en höfum ekki náð að nota markvisst.“