Munurinn á lægstu breytilegu verðtryggðu vöxtum lífeyrissjóða annars vegar og banka hins vegar, hefur aukist að undanförnu. Lífeyrissjóðirnir bjóða mun betri vaxtakjör heldur en bankarnir, en veðhlutfallskröfur eru aðrar og lægri hjá sjóðunum.
Að hámarki lána þeir 70 prósent af virði eignar á meðan bankarnir miða við 80 til 90 prósent af virði eignar.
Yfirlit yfir stöðu mála má sjá á vefnum Herborg.is þar sem lánakjörin sjást, og forsendurnar sem baki vaxtastiginu liggja.
Frjálsi lægstur
Lægstu breytilegu vextir verðtryggðra lána þessi misserinu eru hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum, 2,15 prósent. Stærsti lífeyrissjóður landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, er síðan með næst lægstu breytilegu vextina á verðtryggðum lánum, 2,17 prósent.
Lægstu breytilegu vextir verðtryggðra lána hjá bönkunum eru hins vegar 3,55 prósent, hjá Landsbanka Íslands. Íslandsbanki býður lægst 3,65 prósent og Arion banki 4,22 prósent.
Forsendurnar eru hins vegar breytilegar og taka þarf tillit til þeirra þegar horft er til vaxtastigsins. Þannig eru vextirnir hjá Arion banka, sem er með hæstu vextina, með 3,89 prósent á grunnláni og 4,99 prósent á viðbótarláni. Sé miðað við 80 prósent veðhlutfall þá eru vextirnir 4,22 prósent, eins og áður segir.
Sá lánveitandi sem býður lægstu vextina á breytilegum óverðtryggðum lánum er Birta lífeyrissjóður, 5,6 prósent, en hámarksveðhlutfall hjá honum er hins vegar lægra en hjá flestum öðrum, eða 65 prósent af virði fasteignar.