Verkfall um 1500 flugmanna hjá SAS í Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem hófst aðfaranótt föstudags stendur enn yfir. SAS hefur þurft að aflýsa þúsundum flugferða um helgina en áætlað er að verkfallið hafi áhrif á rúmlega sextíu þúsund farþega í dag. Alls er búið að aflýsa 667 flugferðum í dag og 546 flugferðum á morgun. Frá þessu er greint á vef E24.
Talið að verkfallið kosti félagið allt að 100 milljónir sænskra króna á dag
Verkfallið hófst á föstudag eftir að samningaviðræður flugmanna og SAS fóru út um þúfur aðfaranótt föstudags en ágreiningur er um vinnutíma, vaktafyrirkomulag og laun. Ekki taka allir flugmenn SAS þátt í verkfallsaðgerðum heldur aðeins þeir norsku, sænsku og dönsku. Þetta hefur valdið misskilningi meðal farþega sem halda að allt flug hafi verið fellt niður.
Í umfjöllun E24 segir að danski bankinn Sydbank hefur áætlað að verkföllin kosti flugfélagið á bilinu 60 til 80 milljónir sænskra króna á dag en fjármálafyrirtækið DNB markets hefur fengið það út að verkfallið kosti félagið 75 til 100 milljónir sænskra króna á dag. Þá ætlar DNB markets að ef verkfallið varir í 15 daga þá muni kostnaðurinn verða meira en heildarhagnaður flugfélagsins í ár er áætlaður.
Knut Morten Johansen, upplýsingafulltrúi SAS, segir í samtali við E24 að forsvarsmenn félagsins séu að leggja allt sitt af mörkum til að komast að samkomulagi við verkalýðshreyfingu flugmannanna.