Tilraunir Bloomberg og Wall Street Journal til að fá það staðfest að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi sett sig í samband við OPEC, samtök olíuframleiðsluríkja, til að óska eftir að olíuverðið verðið lækkað, hafa ekki borið árangur.
Ekkert bendir til þess að Trump hafi sett sig í samband við OPEC formlega til að bera þessa ósk upp, en olíuverðið hefur að undanförnu farið hækkandi.
Tunnan af hráolíu hefur farið úr 42 Bandaríkjadölum í byrjun árs í 65 Bandaríkjadali nú, og hefur þetta meðal annars leitt til vaxandi verðbólguþrýstings í Bandaríkjunum.
Trump hefur sagt - ekki síst á Twitter síðu sinni - að nauðsynlegt sé að auka framleiðslu á olíu, til að auka framboð sem þá myndi leiða til verðlækkunar.
En við hvern talaði Trump ef hann hafði ekki formlega samband við OPEC?
Spjótin beinast held að krónprins Sádí-Arabíu, Mohammed Bin Salman, sem Trump hefur átt í góðum samskiptum við, allt frá því hann tók við valdaþráðunum sem forseti í byrjun árs 2017.
Aramco, olíufyrirtæki Sádí-Arabíu, er með um 10 prósent markaðshlutdeild þegar kemur að olíuframleiðslu í heiminum, og hagnaðist um 111 milljarða Bandaríkjadala í fyrra, sem er upphæð sem nemur um 13 þúsund milljörðum króna.
Það er upphæð sem nemur öll virði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, sé mið tekið af fasteignamati.
Sádí-Arabía hefur því mikið um það að segja, hvernig mál þróast á olíumarkaði, og hefur í gegnum árin haft mikla vigt meðal OPEC-ríkja. Olíuríki OPEC eru Alsír, Angóla, Ekvador, Íran, Írak, Katar, Kúveit, Líbía, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía og Venesúela, en höfuðstöðvarnar eru í Vín.