Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að aðstæðurnar sem nú eru upp í þjóðarbúskapnum, með minni spennu en áður, skapi forsendur fyrir lækkun vaxta. Hann segir að nýsamþykktir Lífskjarasamningar hafi leitt til þess að verðbólguvæntingar hafi minnkað.
Þetta kemur fram í grein sem Már skrifar í Morgunblaðið í dag, þar sem hann fjallar um stöðu þjóðarbússins og aðstæðurnar í hagkerfinu eftir fall WOW air og loðnubrest.
„Mikilvægt er að þjóðarbúið býr um þessar mundir yfir meiri viðnámsþrótti gegn áföllum en kannski nokkru sinni áður. Hann birtist í því að í fyrsta skipti, a.m.k. í nútímasögu sinni á þjóðin meiri eignir erlendis en hún skuldar erlendis. Skuldastaða heimila og fyrirtækja hefur ekki verið betri í langan tíma. Bankarnir standa sterkt hvað varðar eigið fé og laust fé. Líkurnar á því að tímabundinn samdráttur magnist vegna greiðsluerfiðleika heimila og fyrirtækja og að aukin útlánatöp höggvi svo djúp skörð í eigið fé bankanna að til vandræða horfi eru því mun minni en ella. Stöðugleika fjármálakerfisins er því ekki ógnað. Þá á þjóðin stóran gjaldeyrisforða sem ekki er fjármagnaður með erlendum lánum. Getan til að milda óhóflegar gengissveiflur er því mikil,“ segir Már, en óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans nemur um 700 milljörðum króna þessi misserin.
Hann nefnir í greininni að verðbólguvæntingar til lengri tíma hafi lækkað, og að þær væntingar sem eru um vaxtalækkanir - meðal annars með sérstöku ákvæði í kjarasamningum - geti átt sér stoð í núverandi aðstæðum. „Áföll og minni spenna í þjóðarbúskapnum skapa að öðru óbreyttu tilefni til lægri raunvaxta Seðlabankans og lækkun verðbólguvæntinga í framhaldi af kjarasamningum auka svigrúm til að sú lækkun eigi sér stað með lækkun nafnvaxta. Aðilar kjarasamninganna hafa væntingar um að þeir skapi forsendur fyrir lækkun vaxta. Eins og ég sagði íviðtölum fyrr í þessum mánuði eru töluverðar líkur á að þessar væntingar muni ganga eftir á næstunni. Ákvæði í kjarasamningum um að þeir geti losnað ef vextir eru yfir ákveðnum mörkum haustið 2020 eiga ekki og munu ekki breyta því þótt þau geti eitthvað flækt framkvæmd peningastefnunnar í framtíðinni. Það bíður betri tíma að ræða það frekar,“ segir Már.
Meginvextir Seðlabankans eru nú 4,5 prósent og verðbólga mælist 3,3 prósent á ársgrundvelli. Hún hækkaði í síðustu mælingur úr 2,9 prósent, meðal annars vegna 20 prósent hækkunar á flugfargjöldum.