Markaðsvirði Marel hefur hækkað um 4,4 prósent í dag, í rúmlega 600 milljóna viðskiptum, og nálgast nú 400 milljarða króna. Markaðsvirðið er tæplega 360 milljarðar króna, en á undanförnu ári hefur markaðsvirðið aukist um 48 prósent.
Vísitala kauphallarinnar hefur hækkað um 3,2 prósent í dag, og 27 prósent á þessu ári, sem er með því mesta sem þekkist meðal kauphalla í heiminum, þessi misserin. Þróuin hangir nokkuð saman við mikla hækkun á virði Marel á þessu ári.
Marel hagnaðist um 32,2 milljónir evra á fyrsta fjórðungi ársins, eða sem nemur 4,3 milljörðum króna, samanborið við 28,3 milljónir evra á fyrsta fjórðungi síðasta árs.
EBIT á fjórðungnum nam 47,5 milljónum evra og hækkaði úr 43,8 milljónum frá fyrra ári. Sem hlutfall af tekjum nam EBIT 14,6 prósentum en hluthlutfallið var 15,2 prósent í fyrra.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir reksturinn hafa gengið vel á fyrsta fjórðungi. „Mótteknar pantanir voru 323 milljónir sem er aukning frá fyrri ársfjórðungum og standa nærri hæsta gildi pantana frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs [...] Á fyrsta ársfjórðungi var aukning í pöntunum á stærri verkefnum í Asíu og Kína, en markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa verið nokkuð stöðugir,“ segir Árni Oddur í tilkynningu.
Eignir Marel nema um þessar mundir tæplega 1,6 milljörðum evra, eða sem nemur 217,6 milljörðum króna. Eigið fé félagsins nemur 523 milljónum evra, eða um 71,1 milljörðum króna.
Marel stefnir á skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam á næstu misserum, og verður félagið þá tvískráð á Íslandi og í Hollandi.