Allt annað er uppi á teningnum á íslenska hlutabréfamarkaðnum, á fyrstu fjórum mánuðum ársins, heldur en sást á markaði í fyrra. Það sem af er ári hefur vísitalan hækkað um 27 prósent, sem er með allra mesta móti sé horft til vísitalna hlutabréfamarkað í heiminum á þessu ári.
S&P 500 vísitala bandaríska, sem mælir gengi bréfa 500 stærstu skráðu félaganna í Bandaríkjunum, hefur hækkað mikið það sem af er ári, eða um 11 prósent, en það er órafjarri rúmlega fjórðungshækkuninni sem hefur verið á vísitölu íslenska markaðarins.
Athyglisvert er að þetta hefur gerst á sama tíma og hagtölur hafa sýnt frekar hraða kólnun í hagkerfinu eftir mikið uppgangstímabil á árunum 2014 til og með 2018.
Mikil hækkun á markaðsvirði Marel hefur mikil áhrif, enda er félagið langsamlega stærsta skráða félagið á íslenska markaðnum, og vegur virði þess um þriðjung af heildarvirði skráðra félaga. Á einu ári hefur markaðsvirðið hækkað um tæplega 50 prósent, en framundan er skráning félagsins í Euronext kauphöllina í Hollandi, og verður félagið þá tvískráð.
Heildarvirði skráðra félaga í kauphöll Íslands er um 1.200 milljarðar, en íslenskir lífeyrissjóðir eiga um 40 prósent hlutafjár. Virði þess er um 480 milljarðar króna, en heildareignir íslenskra lífeyrissjóða nema um 4.400 milljörðum króna, og þar af eru innlendar eignir 3.200 milljarðar.