Landsbankinn, sem íslenska ríkið á að nær öllu leyti (99 prósent), hagnaðist um 6,8 milljarða króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Á sama tímabili í fyrra hagnaðist bankinn um 8,1 milljarð.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir reksturinn hafa verið góðan á reksturinn sé stöðugur.
„Rekstur og efnahagur Landsbankans er traustur og arðsemi bankans góð, eins og gott uppgjör bankans fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 ber með sér. Útlán héldu áfram að aukast, bæði til fyrirtækja og einstaklinga, og útlánasafn bankans er sterkt. Þá hækkuðu þjónustutekjur samhliða auknum umsvifum,“ segir í Lilja Björk í tilkynningu vegna uppgjörsins.
Eigið fé Landsbankans var 246,2 milljarðar króna þann 31. mars síðastliðinn og eiginfjárhlutfallið var 23,8 prósent.
Kostnaðarhlutfallið, það er rekstrarkostnaður sem hlutfall af tekjum, var 38,7 prósent, sem er töluvert undir markmiðinu, sem er í kringum 45 prósent. Kostnaðarhlutfall Landsbankans hefur um nokkurt skeið verið lægst meðal stóru viðskiptabankanna þriggja. Hjá Íslandsbanka og Arion banka hefur það verið á bilinu 55 til 70 prósent, undanfarin misseri.
Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 4. apríl 2019, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa - þar helst ríkisins - vegna rekstrarársins
2018 upp á tæplega 10 milljarða króna. Arðgreiðslan kemur til lækkunar á eigin fé á öðrum ársfjórðungi 2019.