Héraðsdómur Reykjaness hafnaði í dag kröfu fyrirtækisins ALC um að kyrrsetningu Isavia á Airbus-þotu í eigu þess yrði aflétt. Þotan var kyrrsett eftir fall WOW air, en hún var í flugflota félagsins.
Með kyrrsetningunni vildi Isavia tryggja að hægt væri að fá greiðslur upp í tveggja milljarða skuldir WOW air á lendingargjöldum, sem söfnuðust upp í aðdraganda falls félagsins.
Það hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta, en Sveinn Andri Sveinsson hrl. og Þorsteinn Einarsson hrl. eru skiptastjórar bússins.
Í dómnum er þessu hafnað einnig, og sagt að ALC þurfi ekki að greiða allar þessar skuldir, sem söfnuðust upp hjá WOW air í aðdraganda falls félagsins. Félagið þurfi eingöngu að greiða þær skuldir sem tengjast þotunni, sem eru um 87 milljónir en ekki tveir milljarðar.
Í viðtali við RÚV segir Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, að niðurstaðan sé merkileg og að félagið muni freista þess að fá kyrrsetningunni aflétt, svo að eigandinn geti fengið hana til sín og nýtt hana til annarra verkefna.
Isavia hefur enn ekkert gefið út um niðurstöðuna, eða hvort henni verði áfrýjað til Landsréttar.
Íslenska ríkið er eigandi Isavia, sem rekur flugvellina í landinu, þar á meðal Keflavíkurflugvöll.